132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Verð á heitu vatni.

259. mál
[19:39]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á þskj. 272 er beint til mín fyrirspurn í tveimur liðum. Annars vegar er um að ræða fyrirspurn um möguleika notenda á samanburði milli hitaveitna Rariks og hins vegar hverjar forsendur eru fyrir mismunandi orkuverði hjá hitaveitum Rariks.

Hvað varðar fyrri lið fyrirspurnarinnar get ég upplýst að orkunotendur geta í dag borið saman verð á heitu vatni á milli hitaveitna Rariks á heimasíðu fyrirtækisins. Þá hefur orkudeild Orkustofnunar tekið reglulega saman verð á heitu vatni frá hitaveitum og birtir þær mánaðarlega á heimasíðu sinni. Þar er unnt að skoða þær upplýsingar um verð á heitu vatni, fastagjöld, niðurgreiðslur úr ríkissjóði og afslætti hjá flestum opinberum hitaveitum. Innan skamms verður reiknivél sett á vef Rariks þar sem notendur á hverju upphitunarsvæði Rariks munu geta reiknað út hitunarkostnað sinn fyrir mismunandi húsnæði. Slíkur samanburður er þó háður vitneskju um hitastig á vatni inn í íbúðarhús og/eða afslátt af vatnsgjaldi vegna hitafalls í dreifikerfi, einingaverð veitunnar í gjaldskrá Rariks og hvert endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts er frá ríkinu fyrir viðkomandi veitu.

Í hitaveitugjaldskránni er ekki tiltekið hver afsláttur er til einstakra notenda þar sem slíkt er mjög mismunandi eftir notkunarstöðum og notkunarmagni. Hitastig vatnsins er mismunandi hátt til notenda í dreifikerfi hitaveitna og gjaldskrárliðir fyrir rúmmetramælingu hjá Rarik eru miðaðir við 70° inn til notenda. Í þéttbýli er gefinn 2–2,5% afsláttur af vatnsgjaldi fyrir hverja gráðu sem hitastig inn til notenda er undir 70°.

Í síðari hluta fyrirspurnarinnar er spurt um mismunandi orkuverð hitaveitna. Því er til að svara að Rarik á þrjár hitaveitur og tvær fjarvarmaveitur. Fjarvarmaveiturnar eru á Seyðisfirði og á Höfn og sömu einingaverð gilda í dag fyrir sambærilega hitaveitunotkun á báðum stöðum. Hitaveiturnar eru á Siglufirði, í Dalabyggð og á Blönduósi. Þær hafa hins vegar búið við mismunandi aðstæður hvað varðar orkuöflun og dreifikerfi og hafa mismunandi tekjur og gjöld. Sama orkuverð hefur í för með sér millifærslur á milli mismunandi arðbærra eininga. Við kaup Rariks á hitaveitum hefur verið gefinn aðlögunartími í gjaldskrá en eftir 1. janúar 2006 er áætlað að sama gjaldskrá verði fyrir íbúðarhúsnæði í þéttbýli hjá öllum hitaveitum Rariks. Ég endurtek: Eftir 1. janúar 2006 er áætlað að sama gjaldskrá verði fyrir íbúðarhúsnæði í þéttbýli hjá öllum hitaveitum Rariks. Varðandi aðra notkun en fyrir íbúðarhúsnæði er í sumum tilfellum um sérstaka samninga að ræða eftir aðstæðum hverju sinni.