132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Verð á heitu vatni.

259. mál
[19:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að hægt sé að bera saman verðið á heita vatninu á heimasíðunni. Ég hef a.m.k. reynt það og ekki komist fram úr þeim útreikningum vegna þess að ekki kemur fram t.d. hitinn á vatninu. Menn eru því að bera saman mismunandi heitt vatn og þess vegna er þetta ómögulegt. Ég er ekki einn um það vegna þess að, eins og ég sagði fyrr í umræðunni, þá reyndi ég að bera þetta undir einn af æðstu stjórnendum Rariks og hann treysti sér ekki til að koma með dæmi svo að alla vega ég skildi það.

Þeir eru kannski ekkert óvanir því að setja fram dæmi sem eru ekki mjög skiljanleg eins og ég nefndi með 16 blaðsíðna reikninginn. Ég fagna því ef breyting verður á þessum orkureikningum 1. janúar 2006, ef ég heyrði rétt hjá hæstv. ráðherra, vegna þess að það skiptir verulega miklu máli að þetta sé gagnsætt þannig að hægt sé að bera saman verð. Þá verður líka auðveldara fyrir fólk að taka þátt í sparnaðaraðgerðum og skilja t.d. fundi sem boðaðir eru á Akureyri um orkusparnað. Ég fagna því að við fáum sambærilegt verð eða a.m.k. að hægt verði að bera saman verð á milli hitaveitna.