132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:32]
Hlusta

Guðmundur Magnússon (Vg):

Hæstv. forseti. Nú þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um eingreiðslu í desember vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þeir eru nefnilega tveir sterku mennirnir í stjórninni, tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi hvort ríkisstjórnin muni tryggja að sambærilegar greiðslur komi til lífeyrisþega, öryrkja og aldraðra sem og þeirra er þiggja atvinnuleysisbætur og í öðru lagi hver sú upphæð verði.

Við treystum því að ríkisstjórnin komi fram við þessa hópa eins og aðra launþega þessa lands. Lífeyrisþegar og atvinnulausir munu vilja halda jól eins og aðrir og ekki veitir af stuðningi sem ég tel víst að ríkisstjórn Íslands muni veita af heilu og fullu hjarta.