132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:12]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mannréttindi eru algild, sagði hæstv. utanríkisráðherra og ég tek undir það með honum. Þau eru algild og þau eiga að ná yfir alla, líka meinta hermdarverkamenn sem eru í haldi hjá leyniþjónustum erlendra stórvelda.

Því segi ég þetta, frú forseti, vegna þess að núna eru erlendis miklar umræður um fangelsi, leynifangelsi í skuggaríkjum, þangað sem fluttir eru meintir hermdarverkamenn til yfirheyrslna og þar er beitt aðferðum sem ekki eru hefðbundnar. Það hafa verið lagðar líkur að því að þar sé jafnvel beitt pyndingum.

Nú vill svo til að þetta hefur komið fram í umræðu hér á Íslandi síðustu daga, frú forseti. Þetta hefur mikið verið í umræðum í erlendum blöðum og talið er að Ísland sé jafnvel miðstöð slíkra flutninga. Þýskt stórblað kallaði Ísland miðstöð slíkra fangaflutninga til landa þar sem vitað er að beitt er pyndingum við yfirheyrslur.

Við höfum rætt þetta við hæstv. utanríkisráðherra síðast í gær og ég var ekki ánægður með svörin. Skömmu eftir að hæstv. ráðherra gaf hér heldur loðmulluleg svör bárust fregnir af því að á Reykjavíkurflugvelli er flugvél frá Devon Holding & Leasing sem New York Times segir að sé leppfyrirtæki CIA.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvað ætlar hann að gera í því? Ætlar hann ekki að gefa út formlega yfirlýsingu um það til Bandaríkjastjórnar að þessum vélum og þessum flutningum sé ekki heimilt að fara um Ísland? Ætlar hæstv. utanríkisráðherra ekki heldur að gefa út formlega yfirlýsingu um að þeim flugvélum sem vitað er að eru notaðar í þessum tilgangi sé bannað að koma um íslenska lögsögu?