132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:14]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta mál nokkuð ítarlega hér í þingsalnum í gær og ég gerði þar alveg skýra grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef í þessu máli. Þau byggjast ekki á fyrir fram gefnum forsendum eins og hv. þingmaður gaf sér þegar hann kom hér í gær með fyrir fram skrifaða ræðu og hafði ekki einu sinni hlustað á það sem sagt var í umræðunni og tók þar af leiðandi ekkert mark á því. Mér heyrist hann ekki gera það í dag heldur.

Það lenti flugvél á Reykjavíkurflugvelli í gær og af henni birtust myndir í sjónvarpi og blöðum. Sú flugvél fékk tollskoðun eins og allar slíkar vélar sem hingað koma. Ég hef innt sérstaklega eftir því og er að kanna hvort nokkuð grunsamlegt hafi komið út úr þeirri skoðun á vélinni. Það má vera að hv. þingmaður hafi rannsakað það og kynnt sér að þar hafi verið fangar um borð. Ég tel fullvíst að þar hafi ekki verið neinir laumufarþegar eða fangar, (Gripið fram í.) hvað þá að þar hafi verið einhverjir aðilar sem beittir eru pyndingum. Um þetta vitum við ekki, en ég tel víst að flugvélin hafi lent hér í friðsamlegum og lögmætum tilgangi.

Við þurfum að fá að vita hvort Bandaríkin eða önnur ríki hafi flutt fanga um Ísland til landa þar sem þeir eru beittir óeðlilegum yfirheyrslum eða óeðlilegum aðgerðum. Slíkt sættum við okkur ekki við, höfum mótmælt og munum áfram mótmæla. En í þetta mál vantar þá fullvissu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson virðist hafa í þessu máli eins og svo mörgum öðrum án þess að hafa kynnt sér þau til hlítar.