132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það var hálfneyðarlegt fyrir hæstv. utanríkisráðherra að þurfa að svara fyrir um hið ólöglega fangaflug í sama mund og ein slík vél lenti hér á Reykjavíkurflugvelli. Það er að sjálfsögðu ekki svo að eingöngu þegar fangar séu um borð sé um brot að ræða. Ef í hlut eiga aðilar sem villa á sér heimildir eða aðilar sem hafa tekið þátt í grófum mannréttindabrotum og lögbrotum þá eiga þeir að sjálfsögðu ekkert erindi inn í lofthelgi okkar og á íslenska flugvelli þó svo að þeir séu ekki með fanga um borð í viðkomandi ferð.

En ég ætlaði að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hverju sæti hin mjög svo fátæklega umfjöllun hans um þann atburð á alþjóðavettvangi sem hefur verið langfyrirferðarmestur í umræðu síðastliðin þrjú ár og það er Íraksstríðið. Um það mál eru sjö og hálf lína í 16 blaðsíðna langri ræðu. Hverju sætir að hæstv. utanríkisráðherra minnist t.d. ekki á nýjustu atburði, þá staðreynd að Bandaríkjaher hefur nú játað á sig notkun efnavopna í Írak, hefur játað á sig notkun fosfórsprengna og að hafa notað slíkar sprengjur, ekki til að búa til reyk eða lýsa upp heldur beint þeim gegn fólki? Að vísu segja þeir gegn vígamönnum en það er nú kannski erfitt að draga það í sundur þegar ráðist er á stórborg og hún lögð í rúst, jöfnuð við jörðu eins og gert var í Falluja.

Það liggur fyrir að Bandaríkjamenn hafa pyntað fanga. Það liggur fyrir að þeir stunda ólögmætar fangelsanir því að þeir halda mönnum í fangelsum mánuðum og árum saman án ákæru og nú liggur fyrir að þeir hafa notað efnavopn. Þetta eru þrjú af fjórum ákæruatriðum gegn Saddam Hussein. Saddam Hussein er ákærður fyrir fjöldamorð, fyrir pyntingar, fyrir ólögmætar fangelsanir og fyrir notkun efnavopna. Hann er örugglega sekur um þetta allt saman. (Forseti hringir.) En því miður virðast þeir sem steyptu honum af stóli vera orðnir sekir um a.m.k. þrennt af fernu. Hvað segir hæstv. utanríkisráðherra um þetta?