132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:51]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður verður að gera þá lágmarkskröfu til þeirra þingmanna sem taka þátt í umræðunni að þeir geti að minnsta kosti vísað rétt í ræður þeirra þingmanna sem tala á undan þeim. Í fyrsta lagi talaði ég ekki um mannréttindi. Ég talaði um mannöryggi, það er nýtt hugtak í öryggismálum sem heitir mannöryggi, „human security“, sem menn eru farnir að vinna með um allan heim og skilgreina. Það er notað sem hugtak í varnarmálum en síðan skipuleggja menn viðbrögð og viðbúnað í samræmi við það.

Ég talaði líka um að við kynnum að eiga öryggissamfélag með Evrópu í framtíðinni. Ég held að það sé bara mjög raunsætt mat. Ég er ekki ein um að segja það. Ég veit ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra hafi haft það mjög á orði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. Ég tel ekkert rangt að menn horfi til þeirrar áttar. Bíddu við, eiga menn bara að vera með einhverjar blinkur fyrir augunum þannig að þeir geti ekki séð til allra átta? Auðvitað þurfum við að búa okkur undir framtíðina og líta til allra átta.

Varðandi varnarsamning við Frakkland þá er þingmaðurinn einhvers staðar úti í móa, verð ég að segja. Ég hef þá verið með ósjálfrátt tal ef það hefur komið hér fram í mínu máli.