132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á hvernig hv. þingmaður getur sagt svona. Hann talar eins og hér sé um fangaflutninga að ræða. Ég átta mig alls ekki á því. Það er eins og hann hlusti ekki á neitt sem fram hefur farið í samfélaginu síðustu daga. Þetta er alveg með ólíkindum.

Varðandi varnarsamninginn og viðræðurnar við Bandaríkjamenn um hann er ljóst að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa farið með það mál eins og önnur mál saman í ríkisstjórn og þeir flokkar hafa stutt hvor annan í því. Það þýðir því lítið fyrir hv. þm. Össur Skarphéðinsson að koma hingað upp og reyna að búa til einhverjar tvær stefnur í því máli eða eitthvað slíkt, reyna að koma einhverju illu til leiðar á milli þessara flokka. Það er alveg fráleitt.

Hér var hv. þingmaður að túlka ræðu hæstv. forsætisráðherra á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins núna fyrir stuttu. Þar var hæstv. forsætisráðherra ekkert að vega að Sjálfstæðisflokknum, alls ekki. Hann var einungis að draga fram viðræðurnar, hvernig staðan væri í þeim málum. Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um, að verið sé að klúðra málum. Alls ekki. Hvernig getur hv. þingmaður haldið því fram? Hann hefur fengið allar upplýsingar um þetta mál. (ÖS: Halldór sagði …) Og miklu meiri upplýsingar en aðrir þingmenn. Ég spyr: Hvernig halda þingmenn að staðan væri núna ef Samfylkingin færi með þessi mál? Við getum ekki einu sinni skilið stefnuna sem Samfylkingin hefur. (Gripið fram í: Eru Rússarnir komnir?) Eru Rússarnir komnir? Já ætli það ekki bara. Maður getur örugglega séð það fyrir sér, og þá væri nú málið aldeilis í klúðri, fyrst maður áttar sig ekki á stefnu Samfylkingarinnar gagnvart varnarsamningnum. (Gripið fram í.) Þið sitjið á girðingunni. Þið segið hvort tveggja: Við viljum hafa varnarliðið og við viljum að það fari. Af hverju hafið þið ekki skýra stefnu í þessu máli? Þetta er það stórt mál að þið verðið að hafa skýra stefnu.