132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki varist glotti þegar ég hlusta á þingmenn Framsóknarflokksins skamma Samfylkinguna fyrir stefnuleysi í varnarmálum án þess ég ætli svo sem neitt að skipta mér af þeim deilum vegna þess að mér finnst svolítið skorta á stefnu Framsóknarflokksins varðandi hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.

Ég hlustaði áðan með athygli á ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Mér heyrðist sem hún kæmi með þau skilaboð innan úr herbúðum ungra framsóknarmanna að Framsóknarflokkurinn mundi hafa það á stefnuskrá sinni innan skamms að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér heyrðist hún einnig tala á þann veg að hún væri sjálf fylgjandi því að við yrðum aðili að sambandinu. Ég kem því hér upp til að spyrja hana hvort það sé einmitt í farvatninu hjá stjórnmálaflokki hennar og hver sé skoðun hennar í því máli. Er hún fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu?

Mig langar einnig til að forvitnast nánar um annað. Hún virðist búa yfir upplýsingum sem við hin höfum ekki. Upplýsingum varðandi það að Evrópusambandið sé reiðubúið til að gangast inn á eins konar samkomulag við Íslendinga varðandi fiskveiðimálin. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með að þar stendur hnífurinn heldur betur í kúnni.

Ég hef ekki getað heyrt það frá talsmönnum Evrópusambandsins til þessa að þeir væru reiðubúnir til að fallast að neinu leyti á að Íslendingar fengju einhverjar undanþágur frá hinni svokölluðu sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem allir vita sem kynnt hafa sér hana að hefur leitt af sér, ég vil segja skelfilegar hörmungar fyrir fiskveiðisamfélög sem eru svo óheppin að heyra undir þetta samband.