132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður endaði ræðu sína á því að tala um varnarmál og það var einmitt það sem ég hugðist tala um í ræðu minni. Það er því best að halda áfram og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið áðan hjá hv. ræðumanni Steingrími J. Sigfússyni þó að skoðanir okkar séu að vísu nokkuð ólíkar og áherslumál einnig í þeim efnum.

Hæstv. utanríkisráðherra Geir Haarde sagði orðrétt í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggir á aðild ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu og snertir viðbúnað og stöðu þess á Norður-Atlantshafi.“

Já, „byggir á aðild ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu“. Hér tel ég að umræðan hafi einmitt kannski verið svolítið villuráfandi undanfarin missiri því að mér finnst oft eins og fólk gleymi því gjarnan þegar talað er um stöðu Íslands og varnir Íslands að við erum fullgildir meðlimir, fullgilt aðildarríki að NATO og menn horfi allt of mikið og eingöngu til Bandaríkjamanna.

Ég hef reynt að viðra skoðanir þess efnis að sé svo að Bandaríkjamenn vilji fara héðan þá sé í raun og veru ekkert við því að gera. Ef þeir óska eftir að segja upp varnarsamningnum eins og manni sýnist oft stefna í þá sé ekkert við því að gera, en þá hljóti samt sem áður að standa eftir sú staðreynd að við erum aðildarríki að NATO. Því hef ég viðrað hugmyndir þess efnis að við ættum, fyrst Bandaríkjamenn virðast ekki lengur hafa áhuga á að vera hér, að reyna að leita eftir samstarfi við aðrar NATO-þjóðir sem fullgilt ríki. Við þurfum ekki að skammast okkar neitt í þeim hópi. Við erum fullvalda þjóð í miðju Atlantshafi og mér finnst að við ættum kinnroðalaust að geta leitað eftir samstarfi við aðrar þjóðir í þessu varnarbandalagi.

Það er skýr stefna okkar í Frjálslynda flokknum að við styðjum aðild Íslands að NATO og höfum alltaf gert. Við teljum einfaldlega að innganga okkar í NATO á sínum tíma hafi verið mikið gæfuspor fyrir okkur Íslendinga. Heimurinn er hættulegur og hann var hættulegur. Það hefur í raun og veru ekkert breyst þó að kalda stríðinu sé lokið og við þurfum að finna okkur öryggi einhvers staðar. Ég tel að enda þótt menn tali oft hæðnislega um þær fjórar orrustuþotur sem hér hafa verið að undanförnu vilji þeir líka oft gleyma að þrátt fyrir allt er hér ákveðinn viðbúnaður. Hér eru flugvellir, hér eru hafnir og ætti að vera hægur leikur að kalla hingað lið með tiltölulega skömmum fyrirvara frá nágrannalöndunum ef í harðbakkann slægi, til að mynda frá Evrópu, frá Skotlandi, Bretlandi, Þýskalandi og hugsanlega Noregi, nú eða Bandaríkjunum.

Þess vegna hef ég reynt að viðra hugmyndir um hvort ekki væri hægt að ná fram einhvers konar samningum við nágranna okkar austur af okkur í Evrópu. Ísland er eyja í miðju Norður-Atlantshafi og yfirráð yfir henni eða ítök á hættutímum hljóta að skipta miklu máli fyrir þessar þjóðir. Það hefur ekki breyst frá því í seinni heimsstyrjöld að siglingaleiðin yfir Norður-Atlantshaf, milli Norður-Ameríku og Evrópu, liggur fram hjá Íslandi. Ég get ekki ímyndað mér annað en að á hættutímum skipti lega Íslands mjög miklu máli, þessi stóra eyja í miðju Norður-Atlantshafi. Hún hlýtur að skipta mjög miklu máli fyrir Evrópuþjóðir í varnarlegu tilliti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að vina- og bandalagsþjóðir okkar í NATO hafi ekki áhuga á að halda uppi varnarsamstarfi við Ísland í framtíðinni. Ég neita hreinlega að trúa öðru.

Því hygg ég að hér sé færi fyrir okkur og það þarf ekki að felast í því nein móðgun við Bandaríkjamenn þótt við leituðum eftir varnarsamstarfi við aðrar Evrópuþjóðir. Langt í frá. Því þessar þjóðir eru líka fullgildir meðlimir í NATO alveg eins og Bandaríkjamenn og Íslendingar.

Hins vegar má vel vera að áherslupunktar hafi breyst með breyttri heimsmynd. Ég nefndi áðan að Ísland er eyja í miðju Norður-Atlantshafi og ég nefndi siglingar. En við getum líka nefnt flugumferð. Það er gríðarlega mikil flugumferð um íslenska lofthelgi. Farþegaflug milli Evrópu og Ameríku fer gegnum íslenska lofthelgi, að verulegum hluta að minnsta kosti. Í þessu tilliti hlýtur lega landsins líka að skipta verulegu máli.

Nú er ég ekki endilega að mæla fyrir því að við höfum hér alltaf erlent herlið. Það er ekki víst að nauðsynlegt sé að hafa hér erlendan her. En hér gæti hins vegar verið fyrir hendi ákveðinn viðbúnaður, hafnaraðstaða, flugvellir, geymslur með birgðum, jafnvel með vopnum sem erlent herlið gæti síðan gripið til og notað ef þess þyrfti. Íslendingar gætu síðan séð um rekstur og viðhald á mannvirkjum og að vakta hugsanlegar birgðastöðvar. Hingað gæti síðan sameiginlegt herlið frá NATO komið t.d. til æfinga. Ég sé ekkert athugavert við það. Að vera í varnarbandalagi hlýtur að kalla á ákveðnar skyldur og þátttöku. Ég sé í raun og veru ekkert athugavert við það, mér finnst það afskaplega mikil einföldun að ímynda sér að Ísland geti alltaf staðið fyrir utan öll hernaðarbandalög. Það er að vísu falleg hugsjón, en ef maður horfir raunsætt á hlutina og leggur á þá raunsætt mat þá tel ég að þetta sé bara því miður ekki raunhæft.

Væri ekki athugandi að skoða hvort Bretar, Norðmenn, Danir, Þjóðverjar eða Frakkar hafi ekki áhuga á einhverju slíku samstarfi við okkur? Þetta væri hugsanlega leið til að efla Landhelgisgæsluna. Hæstv. utanríkisráðherra kom reyndar að því í ræðu sinni áðan að hugsanlega gæti Landhelgisgæslan tekið meiri þátt í að halda hér úti viðbúnaði í sambandi við björgun. Hér var þyrlubjörgunarsveit nefnd áðan. Gæti Landhelgisgæslan t.d. séð um sjóvarnir á vegum NATO á hafsvæðum í kringum Ísland og hugsanlega átt samvinnu við Dani hvað það varðar? Danir koma til Íslands á hverju ári með stór herskip til að ná í vistir og skipta um mannskap. Þetta eru herskip sem stunda gæslustörf við Grænland. Gæti íslenska Landhelgisgæslan hugsanlega fundið einhverja fleti með Dönum í þessu efni? Og ef við náum lendingu í erfiðum deilumálum við Norðmenn á Svalbarðasvæðinu mætti þá t.d. hugsa sér einhvers konar samvinnu við Norðmenn í framtíðinni varðandi eftirlit á hafsvæðunum norður af Íslandi, t.d. umhverfis Jan Mayen eða á Jan Mayen eða Svalbarðasvæðinu? Hver veit. Það má vel vera að mönnum þyki þetta fáránlegar hugsanir í dag en þetta gæti breyst mjög fljótt. Mér finnst alls ekkert óraunhæft að hugsa einhvern veginn á þessum nótum, að varpa fram hugmyndum um hvort ekki sé hægt að finna einhverja svona fleti með nágrannaþjóðum og vinaþjóðum okkar sem um leið mundi efla okkur hér á Íslandi, efla Landhelgisgæsluna og e.t.v. skapa einhver störf hér á landi. Hugsanlega gæti þetta hjálpað okkur við að koma á fót einhvers konar viðbúnaði. Við erum nú þegar að reyna af veikum mætti að koma upp alls konar viðbúnaði t.d. varðandi hryðjuverkaógn, á Keflavíkurflugvelli svo dæmi sé nefnt, sem er mjög kostnaðarsamt. Gætu íslenskar sérsveitir fengið þjálfun innan NATO og hugsanlega fengið búnað sem að einhverju leyti yrði þá greiddur af bandalagsþjóðum okkar í NATO? Spyr sá sem ekki veit.

En mér finnst, virðulegi forseti, að íslensk stjórnvöld hafi alls ekki verið nægjanlega vakandi fyrir þessum möguleika. Það má reyndar vel vera að menn hafi hugleitt eitthvað svipað. Kannski hefur verið reynt að kanna eitthvað bak við tjöldin, ég veit það ekki. En við hin sem fyrir utan stöndum og horfum á þetta frá sjónarhóli venjulegra borgara höfum ekki orðið vör við að svona þreifingar væru í gangi. Stjórnvöld virðast einblína á Bandaríkjamenn og á meðan stjórnvöld eyða öllum sínum tíma og orku í það þá gerist í raun og veru ekkert nema það að Bandaríkjamenn eru smám saman að fara héðan. Það hljóta allir að vera sammála um það. Það sem eftir er á Keflavíkurflugvelli er orðið ansi dapurlegt. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að Bandaríkjamenn séu að draga saman seglin. Þetta vafasama styrjaldarævintýri þeirra í Írak hlýtur að hafa kostað skildinginn og á örugglega eftir að gera það áfram, þannig að það er í raun og veru ekkert óeðlilegt að þeir séu að pakka saman, bæði hér og annars staðar, t.d. í Þýskalandi þar sem þeir hafa verið að loka mjög stórum herstöðvum sem hafa verið í rekstri allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra að þessu sinni. Það eru fleiri þættir sem ég hefði viljað koma inn á en mér skilst, virðulegi forseti, að ég eigi möguleika á annarri ræðu síðar í dag, þannig að í staðinn fyrir að fara út í stílbrot og fara að tala um allt aðra hluti sem mig langar líka að koma að, t.d. hafréttarmál, þá hygg ég að betur fari á því að ég taki það fyrir í seinni ræðu minni.