132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:32]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Umræðan um ræðu hæstv. utanríkisráðherra, Geirs H. Haardes, um utanríkismál hefur að mestu leyti verið á rólegum nótum. Ræða ráðherra er yfirgripsmikil og þar er gripið inn á flesta þætti utanríkismála og þeim gerð eins og góð skil og hægt er að gera í stuttri ræðu og áhersla lögð á stöðu okkar sem lítillar þjóðar og þá miklu og ríku áherslu sem við Íslendingar höfum ávallt lagt á frelsi og mannréttindi öllum til handa í víðustum skilningi þess orðs.

Ég átti því láni að fagna, vil ég segja, nú í byrjun septembermánaðar að sitja fund í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna þar sem saman voru komnir þingforsetar flestra ríkja í veröldinni. Þeir fluttu þar sinn boðskap og var eftirtektarvert hversu líka skoðun þingforsetar frá ólíkum þjóðum höfðu á málunum. Það var lögð áhersla á frelsi öllum til handa, sjálfbæra þróun, öryggi, almenn mannréttindi, baráttu gegn fátækt og hryðjuverkum og jafnframt var lögð rík áhersla á þá miklu þýðingu sem þjóðþing hefur í öllum löndum. Þjóðþing er ekki einn maður, það samanstendur af ólíkum hópi, mönnum og konum sem eru þjóðkjörin, hafa ólík viðhorf og gæta margvíslegra hagsmuna. Ég hygg að það hafi verið samdóma álit okkar allra að það sé í rauninni nauðsynlegt að þjóðþingin eigi nánari samvinnu á sviði öryggismála en verið hefur þar sem við getum rætt öll þau mikilvægu mál sem mannkyninu ríður nú mest á að vel sé sinnt, ekki aðeins af stjórnvöldum hvers lands, ekki aðeins af þjóðhöfðingjum hvers lands heldur af fulltrúum fólksins á hverjum stað.

Þegar við íhugum stöðu íslenska þingsins eigum við að hafa það í huga hvar við stöndum sem sitjum hér á Alþingi, hversu ólíkir við erum innbyrðis og hversu ófúsir við erum til þess að varpa valdi okkar til einhvers eins manns utan þessara sala. Slíkt kemur að sjálfsögðu ekki til greina.

Það vakti athygli mína þegar ég gegndi störfum forseta Alþingis hversu ríka áherslu Eystrasaltsþjóðirnar lögðu á samstöðu með okkur Norðurlandaþjóðum, líka í öryggismálum, sem kom m.a. fram í því að forsetar allra þjóðþinganna heimsóttu Kiev í Úkraínu þann 30. september sl., til þess að reyna með táknrænum hætti að leggja því lið að þingræði og lýðræði mætti festast í sessi á þeim slóðum.

Ég gat ekki stillt mig um að spyrja hv. þm. Þuríði Backman, þegar hún kom til baka, hvort hún hefði verið svo lánsöm að sjá múmíuna af Þorvaldi víðförla, sem mun vera í Kænugarði, en henni hafði ekki hlotnast sá heiður að fá að sjá landa sinn þar, þúsund ára gamlan.

Það vakti athygli mína á hverju formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hóf ræðu sína hér í dag. Hún ræddi sérstaklega varnarmálin og kom mér raunar ekki á óvart að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skyldi taka hana á orðinu. Hins vegar kom mér skemmtilega á óvart að hv. þingmaður skyldi spyrja hvers vegna varnarlið hefði verið hér á sínum tíma, sem sýnir að hann hefur ekki dregið miklar ályktanir af sögunni. Þegar samningar voru gerðir um veru varnarliðsins á Íslandi og við gengum í NATO voru válegir tímir, viðsjárverðir tímar. Við þurfum ekki að rifja upp hér í einstökum atriðum yfirgang Sovétríkjanna á þeim tíma, hvernig þeir lögðu Tékkóslóvakíu undir sig — það hafði mikil áhrif á mig, ungan mann — innrásina í Ungverjaland 1956 og fleira þvílíkt sem auðvitað sýndi að það voru ekki friðartímar í Evrópu. Nú er komið í ljós að Stalín varpaði 52 milljónum manna í pólitískar fangabúðir eða stytti þeim aldur. Auðvitað segir þetta meira og betur en orð fá lýst hvernig ástandið var á þessum tíma.

Við getum síðan rifjað upp hver afstaða einstakra stjórnmálamanna hefur verið til varnarmála frá stríðslokum og allt fram á þennan dag. Ég hygg að í síðustu umræðum sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók þátt í um utanríkismál hafi Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, verið utanríkisráðherra. Ég hygg að það sé rétt munað hjá mér að þá hafi hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verið á svipuðum nótum og formaður Alþýðubandalagsins á þeim tíma, Ólafur Ragnar Grímsson. Og ég hygg að ef flett yrði upp í þessum ræðum megi líka finna því stað að báðir þessir þingmenn hafi talið eðlilegt að Atlantshafsbandalagið yrði lagt niður eftir að Sovétríkin hrundu, sem var sú ályktun sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon dró hér áðan.

Vegna þess að ég sé að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hér í skotlínunni, hann var kominn í Alþýðuflokkinn á þeim tíma og má vera að hann hafi þá haft hlýrri taugar til NATO en löngum áður, má vera.

Það gefur hins vegar tilefni til að rifja þetta upp að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór að tala um afstöðu okkar Íslendinga til varnarliðs hér að stríðslokum. Þeir voru raunar sammála um það eftir stríðið, Einar Olgeirsson og Bjarni Benediktsson, svo tveir menn séu nefndir, að Ísland væri á þeim tíma hernaðarlega mikilvægt svæði. Um það var ekki ágreiningur milli þeirra. Það lá raunar líka fyrir að hlutleysisstefnan gengi ekki lengur upp og í merkilegri grein sem Bjarni Benediktsson skrifaði, Einangrunin, okkar gamla vernd væri úr sögunni og færði hann rök fyrir því.

Nú er eðlilegt að afstaða okkar til varnarsamningsins og Atlantshafsbandalagsins sé til umræðu enn einu sinni. Ég las aftur yfir þá tillögu til þingsályktunar sem fjórir samfylkingarmenn og -konur hafa flutt um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands. Þar er því öðrum þræði slegið föstu að nauðsynlegt sé fyrir okkur að hafa varnarviðbúnað en það er síðan óðara tekið aftur í næstu setningu þannig að tillagan, og greinargerðin með henni, er að þessu leyti ruglingsleg.

En auðvitað er það svo að við Íslendingar þurfum sem aðrar þjóðir á öryggis- og varnarbúnaði að halda og af þeim sökum er eðlilegt að við leggjum okkur fram um og leggjum áherslu á að ljúka þeim viðræðum sem eru nú við Bandaríkjamenn um framhald varnarsamningsins. Ég hygg að við séum eins og flestir lýðræðissinnar sammála um að nauðsynlegt sé að halda því máli vel til streitu.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að koma frekar inn á þessi mál. Það hefur komið í ljós að ýmsar þær þjóðir sem voru í Varsjárbandalaginu telja sér mikinn styrk í því að bindast varnarsamtökum við hin gömlu lýðræðisríki. Það segir auðvitað sína sögu og það staðfestir í rauninni að sá grundvöllur sem stofnskrá Atlantshafsbandalagsins hvílir á er réttur. Þetta finnum við þegar við ræðum við stjórnmálamenn frá fyrrum löndum Varsjárbandalagsins.

Ég hlýt, frú forseti, í þessari ræðu minni að leggja áherslu á gott samstarf okkar Íslendinga við önnur Norðurlönd, sérstaklega Færeyinga og Grænlendinga. Ég lagði áherslu á það í stuttri ræðu, sem ég flutti á fundi þingforseta í New York nú í septembermánuði, að við Íslendingar hlytum að leggja mikið upp úr því að rannsakað yrði hvaða áhrif mengun og hlýnun á norðurskautssvæðinu getur haft. Við hljótum að skipa okkur í sveit með þeim þjóðum sem mesta áherslu leggja á hvers konar umhverfisvernd í þeim skilningi að við viljum nýta orkulindir jarðar og að við viljum leggja áherslu á sjálfbæra þróun. Ég hygg að við Íslendingar höfum gert það.

Eins og sést hér í ræðu hæstv. utanríkisráðherra höfum við Íslendingar lagt mikla áherslu á það á síðustu árum að fjölga viðskiptasamningum við önnur ríki í því skyni að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Fríverslunarsamningar, tvísköttunarsamningar og samningar um verndun fjárfestinga eru mikilvægustu þættir í þeirri viðleitni og við Íslendingar hljótum einnig að leggja mikla áherslu á frelsi í alþjóðaviðskiptum. Þar hefur auðvitað, eins og endranær, verið mikill ágreiningur um viðskipti með búvörur en við hljótum um leið að leggja áherslu á lækkun tolla á sjávarafurðir.

Það hefur verið hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að klúðra samningaviðræðum um varnir Íslands, sagði hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Klúðra samningaviðræðum um varnir Íslands út frá sjónarmiði hvers? Okkur hefur tekist allan þennan tíma að klúðra samningaviðræðum um varnir Íslands út frá sjónarmiðum vinstri manna, út frá sjónarmiðum Alþýðubandalagsins á sínum tíma, út frá sjónarmiðum Sameiningarflokks alþýðu, sósíalistaflokksins og út frá sjónarmiðum þess arms Kvennalistans sem ekki mátti heyra minnst á vestræna samvinnu. Á hinn bóginn höfum við haldið vörð um það, sjálfstæðismenn, að hafa í gildi vestræna samvinnu og manngildið og búa þannig um hnútana að við Íslendingar höfum getað verið í frjálsu samfélagi þjóða þar sem öryggis þegnanna hefur verið gætt.