132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:47]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf merkilegt þegar frægir Íslendingar hittast í útlöndum. Ég hefði viljað vera þar viðstaddur sem Halldór Blöndal, þáverandi hæstv. forseti, hitti múmíuna af Þorvaldi víðförla. Mér finnst að hann ætti að segja okkur af þeim fundi og hvað þeim fór á milli. En þótt hv. þingmaður hafi í ræðu sinni verið staddur nokkuð í fortíðinni þá hugsa ég að hann sé búinn að gleyma því þegar fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, fór til fundar í Washington 1949, ásamt Emil Jónssyni og Eysteini Jónssyni, um varnarmál Íslendinga.

Þegar Bjarni Benediktsson kom til baka sagði hann að hann teldi að á friðartímum ætti her ekki að vera á Íslandi. Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Halldór Blöndal hvort hann sé sammála því viðhorfi síns góða frænda og flokksbróður og sömuleiðis hvort hann sé þeirrar skoðunar að nú ríki friðartímar.

Í öðru lagi skil ég vel að hv. þingmanni renni til rifja að standa undir ásökunum um að tilheyra þeim flokki sem klúðrað hefur samningum um varnarmál Íslendinga og Bandaríkjanna, út frá sjónarmiði eigin flokks. Það verður að segjast að skörin er heldur betur farin að færast upp í bekkinn þegar formaður Framsóknarflokksins þarf að nota ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins til að senda köpuryrði að Sjálfstæðisflokknum fyrir slælega frammistöðu í þessu máli. Það verður að segjast eins og er, að það gengur hvorki né rekur í þessum viðræðum. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur haft allan veg og vanda af því og hrifsaði það á sínum tíma úr höndum þáverandi utanríkisráðherra. Ég spyr hv. þm. Halldór Blöndal: Er hann stoltur af framgöngu flokks síns í þessu máli?