132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:49]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið vel á samningamálum við Bandaríkjamenn. Við höfum lagt áherslu að leita eftir varnarsamstarfi við Bandaríkin vegna þess að báðar þjóðir telji nauðsynlegt að hér sé varnarviðbúnaður. Það er með þeim rökum og á þeim forsendum sem við leitum eftir samningi við Bandaríkin. Ég trúi því að þeir líti svo á eins og við, að þeim sé nauðsynlegt að hér sé varnarviðbúnaður.

Í annan stað getum við, eins og nú standa sakir, ekki talað um að friðvænlegt sé í heiminum, í þeim skilningi að menn telji að þeir þurfi ekki að leggja mikið á sig til að gæta öryggis landa sinna og þegna. Það hygg ég að hv. þingmaður viti jafn vel og ég.