132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:56]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki ný deila við gamlan þingmann Alþýðubandalagsins, áður Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokks, hvort nauðsynlegt sé að hafa varnarviðbúnað á Íslandi. Hv. þingmaður kallaði eftir svörum hér áðan. Ég rifjaði þá upp að þessi mál voru rædd þegar fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var mynduð. Þá voru þessi mál ítarlega rædd á Alþingi og menn lýstu skoðunum sínum. Ýmsir vildu leggja NATO niður á þeim tíma eins og ég rifjaði upp.

Nú liggur fyrir að Samfylkingin virðist a.m.k. öðrum þræði þeirrar skoðunar, a.m.k. fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, að nauðsynlegt sé að hafa hér varnarviðbúnað og gæta öryggis þegnanna. Það er út á það sem málið gengur. Við í Sjálfstæðisflokknum teljum nauðsynlegt fyrir okkur að hafa hér varnarviðbúnað og við teljum að því sé best fyrir komið með því að leita eftir samningi við Bandaríkjamenn eins og verið hefur. Það er kjarni málsins. Það er ekki friðvænlegt í heiminum í þeim skilningi að engin ógn vofi yfir vestrænni menningu eða vestrænum þjóðum eða þjóðum Afríku eða Asíu. Við þurfum ekki að halda okkur einungis við Evrópu, þótt Evrópa sé okkur næst. Ég hygg að allar þjóðir ræði um hvernig þær geti styrkt öryggi þegna sinna, ekki bara Íslendingar heldur allar þjóðir.