132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Að sjálfsögðu ræða menn hvernig best sé tryggt öryggi, friður og farsæld í hverju landi. Sú umræða þarf ekki endilega að vera rekin á þeim einhæfu forsendum að það sé bara annaðhvort eða, að hafa erlendan her í landinu eða að menn séu varnarlausir og algerlega ofurseldir því sem upp kann að koma.

Þjóðir fara mismunandi leiðir í þessum efnum. Það er dálítið merkilegt hversu erfitt það er að fá yfir höfuð upp umræðu um utanríkis-, öryggis- og friðarmál á Íslandi án þess að menn hrökkvi umsvifalaust í þessi eldgömlu hjólför, eins og við heyrum m.a. á ræðuhöldum hv. þm. Halldórs Blöndals. Umræðan er alltaf komin aftur í kalda stríðið og inngönguna í NATO um leið.

Sem betur fer er umræðan víða annars staðar á allt öðrum nótum, þar sem menn nálgast þessa hluti út frá þróun mála á síðustu tíu til fimmtán árum, þeim miklu breytingum sem orðið hafa í stjórnmálum heimsins, í efnahagsmálum og öllu umhverfi.

Ég sagði jú að ég teldi að það hefðu verið mikil mistök að leggja ekki NATO niður í framhaldi af því að Varsjárbandalagið liðaðist í sundur. Þá var lag til að breyta um fyrirkomulag í öryggisgæslu í heiminum, sérstaklega í Evrópu. Þá var mögulegt, ef pólitískur vilji hefði verið til þess af ráðandi öflum, að stórefla lýðræðislega uppbyggðar öryggisgæslustofnanir eins og ÖSE og Sameinuðu þjóðirnar og hverfa frá hinu meingallaða fyrirkomulagi ógnarjafnvægis, vígbúnaðarkapphlaups og hernaðarbandalaga sem heimurinn er því miður fastur í enn þá með tilheyrandi sóun og ófriðlegum aðstæðum, sem hv. þm. Halldór Blöndal sjálfur viðurkennir þegar hann fer að reyna að rökstyðja að það sé víst nauðsynlegt að hafa hér erlendan her af því að það séu viðsjárverðir tímar. Nú bíddu, kerfið virkar þá ekki betur en þetta? (Forseti hringir.) Eru það ekki rök fyrir því að það mætti hugsa sér að breyta því (Forseti hringir.) og gera hlutina öðruvísi?