132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:00]
Hlusta

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi síðustu rök hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni voru undarleg, að menn þurfi ekki öryggisviðbúnað vegna þess að það séu hryðjuverk í heiminum, þá dugi ekki öryggisviðbúnaðurinn. Að maður þurfi ekki lögreglu af því að glæpir eru framdir. Þetta er skrýtin röksemdafærsla.

Ég hafði á hinn bóginn svolítið gaman af því að hv. þingmaður skyldi tala um að hrökkva upp úr gömlu hjólfari. Þetta er gamalt orðalag Alþýðubandalagsins fyrir tíu, fimmtán árum og það má mikið vera að Kvennalistinn hafi ekki notað þetta orðalag einhvern tíma líka, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Auðvitað vorum við sjálfstæðismenn í þessum gömlu öryggishjólförum. En ég vil leiðrétta það hjá hv. þingmanni að ég hafi hafið þá umræðu, að við skyldum hverfa aftur til stofnunar NATO hér í þingsalnum við þessar umræður. Það var hv. þingmaður sem hóf þá umræðu, hóf söguskoðunina, sem mér fannst út af fyrir sig ágætt vegna þess að sú upprifjun er holl og vegna þess að jafnvel þó að menn skipti um flokka og að því leyti höfuðbúnað, þá sjáum við að grunntónninn í orðræðunum þegar talað er um öryggismálin er yfirleitt sá sami.

Auðvitað er þetta aðeins einn partur í utanríkismálum okkar Íslendinga, öryggis- og utanríkismál eru einatt rædd saman. En það er gott að rifja það upp að öryggisbúnaður á Keflavíkurflugvelli er okkar vegna og við gerðum samning við Bandaríkjamenn á þeim forsendum að þeir teldu sér líka nauðsynlegt að hafa hér varnarviðbúnað og það er vegna þess að þetta var sameiginleg nauðsyn að sá samningur varð til. Og það er vegna þess að við sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) lítum svo á að þessi nauðsyn sé enn fyrir hendi sem við viljum framlengja samninginn.