132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir fór víða í umfjöllun sinni um norræna samvinnu og ekki nema gott eitt um það að segja. Ég held að ég geti fullyrt að hér talaði einn af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í utanríkismálum, hv. þm. Drífa Hjartardóttir er jú varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, ef ég fer rétt með, og hún á líka sæti í utanríkismálanefnd Alþingis fyrir hönd síns flokks.

Ég hef sjálfur starfað aðeins innan Vestnorræna ráðsins og hv. þingmaður kom aðeins inn á samstarfið í því ráði þar sem Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar eiga aðild. Norðmenn hafa sýnt þessu samstarfi aukinn áhuga á undanförnum árum og hafa sent háttsetta fulltrúa frá norska Stórþinginu á ársfundi Vestnorræna ráðsins, þ.e. fulltrúa sem eiga sæti í forsætisnefnd þingsins, síðast í hittiðfyrra sjálfan þáverandi forseta norska Stórþingsins, Jörgen Kosmo. Með þessu sýna þeir Vestnorræna ráðinu ákveðinn virðingarvott. Í samtölum við þá hef ég líka orðið þess áskynja að þeir hafa áhuga á að fá aðild að Vestnorræna ráðinu og ég hygg að það sé mjög spennandi kostur. Norðmenn eru fyrir utan Evrópusambandið, við erum það einnig, Færeyingar og Grænlendingar eru það líka að vissu leyti á meðan aðrar Norðurlandaþjóðir eru í sambandinu. Mér finnst hafa orðið svolítil vík milli vina eftir að Svíar og Finnar gengu í sambandið og held að margir telji að svo sé.

Væri ekki vænlegur kostur fyrir Íslendinga og okkur á Alþingi að beita okkur fyrir því að Norðmönnum verði formlega boðin full aðild að Vestnorræna ráðinu? Mér leikur hugur á að vita skoðun hv. þm. Drífu Hjartardóttur á því.