132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:05]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að þetta sé hugmynd sem við Íslendingar ættum að athuga í fullri alvöru. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. utanríkisráðherra að þessi möguleiki verði skoðaður því þegar maður veltir þessu fyrir sér sér maður ótal fleti. Menn hafa í dag reynt að velta upp nýjum hugmyndum varðandi varnarmál og hér hefur verið rætt töluvert um varnarmál. Norðmenn eru í NATO eins og við Íslendingar og ef við skoðum þetta frá varnarlegu sjónarmiði er náttúrlega ljóst að þessar fjórar þjóðir, Grænlendingar, Færeyingar, Íslendingar og Norðmenn, ráða t.d. yfir gríðarlegum hafsvæðum í norðanverðu Atlantshafi. Við höfum norðanvert Atlantshaf í hendi okkar ef svo má segja landfræðilega séð. Þessar þjóðir hafa líka yfirráð yfir gríðarlega miklum náttúruauðlindum, ekki má gleyma því, ekki bara fiski heldur líka olíu og gasi, og ekki aðeins í Noregi heldur líka hugsanlega við Svalbarða, hugsanlega í færeyskri lögsögu, og þá er ég að tala um gas og olíu, og jafnvel við Grænland. Og svo það sem ég nefndi áðan að þessar þjóðir eru allar utan Evrópusambandsins.

Ég hygg að ef haldið væri rétt á spilunum væri hægt að búa til mjög skemmtilegt samstarf með því að bjóða Norðmönnum fulla aðild. Eins og ég sagði áðan hafa þeir mikinn áhuga á þessu máli. Þeir eiga mjög margt sameiginlegt með okkur fyrir utan þá þætti sem ég nefndi áðan, til að mynda eru þeir strandþjóð og fiskveiðiþjóð, þjóð sem lifir á gæðum náttúrunnar eins og reyndar Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar. Menningarlega, landfræðilega, efnahagslega og pólitískt séð eiga þessar þjóðir mikla samleið. Ég hygg þess vegna að það væri vel þess virði að gera þá tillögu að Alþingi hefji baráttu fyrir því að Norðmönnum verði boðin full aðild að Vestnorræna ráðinu.