132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:23]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson býr á Suðurnesjunum og að sjálfsögðu talar hann mjög jákvætt um varnarsamninginn. En ég heyri ekki annað en að stefna Samfylkingarinnar sé afskaplega óskýr og þar tali menn út og suður. Ég heyri að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur afskaplega skýra skoðun í þessu enda veit hann að á Suðurnesjum búa margir sem vinna hjá varnarliðinu. Ætli það séu ekki hátt í 700 manns. Þar af eru 70% sem búa suður frá.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvar stendur það í stefnu Samfylkingarinnar að byggja eigi á varnarsamningnum áfram? Ég heyri ekki annað en að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson geri afskaplega lítið úr viðræðum Íslendinga við Bandaríkjamenn. Þau veikja stöðu Íslands í hvert skipti sem þau opna munninn um þessi mál. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er hann á sömu skoðun og hv. formaður Samfylkingarinnar og hv. fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar?