132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:25]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er á sömu skoðun. Stefna mín hvað varðar varnarsamninginn við Bandaríkin er sú sama og stefna Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundi Samfylkingarinnar og hún hefur einnig verið sett fram af framtíðarhópum sem starfað hafa við þetta efni og eru að byggja upp skemmtilegan málefnagrunn sem við erum að vinna með þessa dagana.

Það fer svolítið í taugarnar á mér að hlusta á það í hverju málinu á fætur öðru að Samfylkingin hafi enga stefnu. Ég held að fáir flokkar á Íslandi hafi í raun eins mótaða stefnu og Samfylkingin í velflestum málum. Sú lína virðist hafa verið gefin frá Valhöll að í hvert skipti sem rædd eru óþægileg mál fyrir ríkisstjórnina þá skuli það heita svo að Samfylkingin hafi enga stefnu í málinu, hún hafi óljósa stefnu eða stefnu sem ekki sé hægt að skilja. Því vil ég hvetja þá hv. þingmenn sem fara með þessa línu úr Valhöll í hvert skipti sem þeir koma hér upp að lesa nú heimasíðu Samfylkingarinnar. Lesið þið þau plögg sem samþykkt hafa verið af Samfylkingunni. Ég trúi því og treysti að hv. þingmenn séu vel læsir og að ekki þurfi að lesa þetta upp fyrir þá, eyða stuttum tíma sem maður hefur í ræðustóli Alþingis til þess. Ég hvet hv. þingmenn til þess að lesa sig í gegnum þetta. Þetta er afskaplega skýrt. Ef það er eitthvað sem þeir skilja ekki eftir að hafa lesið í gegnum þetta — ég geri þá kröfu til þingmanna að þeir séu upplýstir og viti hvað þeir eru að tala um þegar þeir koma hér upp — þegar þeir hafa lesið í gegnum þetta og ef það er eitthvað þá sem þeir ekki skilja í stefnunni okkar í þessu efni þá skal ég glaður taka þátt í að útskýra það fyrir þeim.