132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að Lissabon-ferlið sem átti að auðga Evrópu hefur misheppnast. Það er líka alveg hárrétt hjá honum að í Evrópu ríkir mikið atvinnuleysi en það er hins vegar alveg ljóst að þó að Ísland gengi í Evrópusambandið hefði það engin áhrif á atvinnustig hér, nema hugsanlega til að bæta það. Það er líka hægt að benda á lönd innan Evrópusambandsins þar sem atvinnustig hefur hækkað, að því er virðist beinlínis vegna inngöngu í Evrópusambandið.

Lífeyrissjóðir skipta engu máli í þessu sambandi. Það var fyrir að þakka framsýni þáverandi ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar að hér var byggð upp sérstök tegund lífeyrissjóða. Það er líklega ein farsælasta ákvörðun sem hefur verið tekin hér á landi varðandi velferð þessarar þjóðar og inngangan í Evrópusambandið mun engin áhrif hafa á það. Hins vegar er líklegt að við gætum haft áhrif á Evrópusambandið, og höfum raunar þegar gert það, varðandi þess eigin lífeyriskerfi vegna þess að í vaxandi mæli horfa menn til þess íslenska. Þetta gæti orðið ákveðin útflutningsvara. Ég vona að hv. þingmaður hafi lesið viðtal sem birtist við mig um þetta í sérstöku riti um lífeyrissjóði í Englandi.

Síðan spyr hv. þingmaður mig um ritgerðina og skýrsluna Fiskveiðiauðlindin, spyr hvort ég hafi lesið hana. Já. En hvað var það sérstaklega í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vildi inna mig eftir? Ég dreg í efa að hann hafi lesið hana sjálfur vegna þess að hann kom ekki með nein efnisatriði. Ég get hins vegar sagt honum að ég hef rætt við skýrsluhöfundana, ég hef átt fundi með þeim fleiri en einum og þeir hafa ekki treyst sér til að hrekja það að Íslendingar gætu í samningum við Evrópusambandið fengið því framgengt að hér yrði sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði þar sem Íslendingar réðu fiskveiðum sínum. Bara til að slá á þennan punkt enn frekar er ég þeirrar skoðunar að engar undanþágur þurfi fyrir okkur á sjávarútvegssviði til þess að við getum orðið aðilar að Evrópusambandinu.