132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar ætla ég alls ekki að bregða þessum hv. þingmanni um vanþekkingu. Honum finnst það miklar fréttir að ég telji að við þyrftum ekki undanþágu varðandi sjávarútveg ef við gengjum í Evrópusambandið eða að ég telji að sameiginleg sjávarútvegsstefna væri einhver þrándur í götu. Má ég upplýsa hv. þingmann um að Samfylkingin hefur gefið út heila bók um þetta? Má ég upplýsa hann um að ég hef skrifað svona 10 greinar um þetta, haldið um þetta ræður í þinginu og á erlendum vettvangi? Ég hef meira að segja verið fenginn til að flytja sérstaklega erindi um þetta í þeirri nefnd sem hv. þingmaður situr í, og ég sat í þremur sinnum lengur en hann.

Þegar hv. þingmaður vísar í þessa skýrslu og telur að ekki sé hægt að fá undanþágur — ég skildi hv. þingmann þannig — er það þannig að ég tel að ekki þurfi undanþágur. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála sagði við mig og hæstv. dómsmálaráðherra, formann Evrópustefnunefndar, að við þyrftum enga undanþágu.