132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:28]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég tala um veiðireynslu á ég við það að menn hafa veitt hér við land og hafa engu gleymt. Þeir þekkja fiskinn sem kemur héðan og þeir vita hversu mikil verðmæti felast í því að fá að veiða hér. Hvort sem þeir mundu reyna að nota einhvern lagalegan rétt til að fá þessa veiðireynslu eða ekki hygg ég að þeir mundu með einum eða öðrum hætti reyna að komast inn í lögsöguna, kannski með því að kaupa sig inn í íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, kaupa þau algerlega upp, nota svipaðar aðferðir og Spánverjar hafa verið að beita fyrir sig til að komast einmitt inn í þá gullkistu sem Norðursjórinn var, og vonandi verður aftur seinna meir.

Hitt er svo annað sem hv. þingmaður nefndi, þessir flökkustofnar. Þar eigum við Íslendingar hlutdeild í dag og þar á Evrópusambandið líka hlutdeild. Hefur þingmaðurinn hugleitt hvernig færi til að mynda með veiðar okkar á kolmunna eða á norsk-íslensku síldinni sem Evrópusambandið á líka hluta af? Hvernig færi til að mynda með veiðar okkar í Barentshafinu? Evrópusambandið er með fiskveiðisamning við Norðmenn og Rússa í Barentshafi. Hvað yrði um allar þessar heimildir?