132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins um að trúa mér. Ég bið engan mann um það. Ég segi bara: Þetta er mín skoðun sem byggist á minni eigin rannsókn, löngum lestri og mörgum samtölum. Ég segi einfaldlega að ef gengið yrði til samninga við Evrópusambandið um aðild þá kæmi þetta í ljós. Þá mundu þessir ágætu herramenn sjá þetta sjálfir. Þá mundu þeir að lokum fallast á mína skoðun. Þeir þurfa ekki að taka þetta sem einhvern óbifanlegan sannleik úr mínum munni. Ég veit, vegna þess að ég hef skoðað þetta það vel, að þetta mun koma fram.

Ég get að vísu ekki gumað af því að hafa átt einkafund með Franz Fischler í Sviss. Ég hef hins vegar hitt þann mann mörgum sinnum. Ég hef rætt þessi mál við hann og vísa í það sem hann hefur sagt opinberlega, t.d. eftir fund í Háskólanum í Reykjavík. Það var með þeim hætti að ekki er hægt að túlka það eins og Sigurður Kári Kristjánsson gerir. Ég vísa líka til þess að sænski forsætisráðherrann er þeirrar skoðunar að tillaga hæstv. núverandi forsætisráðherra, sem kennd er við Berlínarræðuna, sé bæði athyglisverð og líkleg til að ganga upp. Það hlýtur að skipta máli.

Í öllu falli tel ég að efnisrök í málinu séu öll á þann veg að ég get verið sannfærður um að Íslendingar mundu efla sjávarútveg sinn við inngöngu. Þeir fengju meiri veiðiheimildir en þeir hafa núna vegna þess að þeir gætu nýtt sér margvíslegar ónýttar veiðiheimildir í krafti þeirra 27 fiskveiðisamninga sem eru við önnur ríki.

Síðan ætla ég að rifja upp að það var Sjálfstæðisflokkurinn, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem fyrstur hleypti Evrópusambandinu inn fyrir efnahagslögsöguna með formlegum samningum. Það var Þorsteinn Pálsson.