132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:35]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aftur að hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að vera einlægur í skoðunum sínum á Evrópumálum. En hans skoðun er einfaldlega sú að grafa eigi undan íslenskum sjávarútvegi. Hún er sú að færa eigi yfirstjórn sjávarútvegsmála frá Íslandi og suður til Brussel. Það eru allir sammála um að þannig verði það. Franz Fischler lýsti því ekki yfir á einkafundi við mig. Hann gerði það á fundi sem ég sótti fyrir hönd þingmannanefndar EFTA. Á þeim fundi voru líka hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og Birkir Jón Jónsson. Þeir geta lýst því sem þar fór fram.

Ég er ósammála því sem fram kemur hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að innganga okkar Íslendinga í Evrópusambandið mundi efla íslenskan sjávarútveg. Ég spyr: Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því? Er árangur Evrópusambandsins í fiskveiðum svo glæsilegur (Forseti hringir.) að ætla megi að sú verði niðurstaðan? Hvort (Forseti hringir.) hafa Ísland eða ESB-ríkin náð meiri árangri í sjávarútvegsmálum?