132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég sannfærður um að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson munu nota möguleika sína til frekari ræðuhalda í dag til að færa rök fyrir því að það yrði slæmt fyrir okkur, hvað sjávarútveginn snertir, að ganga í Evrópusambandið. Ég er þeirrar skoðunar að Íslendingar gætu haldið stjórn á fiskveiðum sínum í krafti þeirrar tillögu sem ég vísaði til áðan og Halldór Ásgrímsson setti fyrstur fram. Hins vegar vil ég segja það alveg klárt og kvitt að ég er líka reiðubúinn til að ganga í Evrópusambandið jafnvel þó að yfirstjórnin yrði í Brussel. Hvaða yfirstjórn yrði í Brussel? Þar yrði bara ein ákvörðun tekin um heildarkvótann. En samkvæmt reglum Evrópusambandsins mundi íslenska ríkisstjórnin síðan deila honum út til innlendra aðila.

Ég er þeirrar skoðunar að í krafti vísindalegra rannsókna, sem í dag eru kannski ekki upp á marga fiska hvað okkur varðar, yrði heildaraflinn ákveðinn. Þannig að ég tel að það sé engin (Forseti hringir.) hætta í því fólgin. En ég skil hins vegar að (Forseti hringir.) hjörtu gamalla og ungra sjálfstæðismanna hætti nánast að slá þegar þetta er sagt. (Gripið fram í.)