132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekkert að finna að því að fulltrúar Framsóknarflokksins séu farnir að tala skýrar um væntingar sínar um aðild að Evrópusambandinu. Það er heiðarlegt að koma fram með þá skoðun og mér finnst hv. þm. Siv Friðleifsdóttir heiðarleg í því efni. Þessi umræða er í gangi innan flokksins og við höfum líka heyrt það frá formanninum. Við höfum líka heyrt þetta orð, orðið samningsmarkmið, frá öðrum flokki og er það hluti af viðræðustjórnmálum þess flokks. Í þessu er fullur samhljómur á milli Framsóknarflokks og Samfylkingar.

Ég er ekkert að draga í efa að hv. þingmaður sé að vitna til ályktana ungra framsóknarmanna. Ég vil þó minna á að það er til fleira ungt fólk en það sem skipar raðir Félags ungra framsóknarmanna, fólk sem er þá annarrar skoðunar.

Ég minnist þess að hafa heyrt í fréttum um skoðanakönnun úr Reykjavík um fylgi hinna ýmsu flokka. Þar var látið að því liggja að enginn ungur kjósandi hefði gefið sig fram sem ætlaði sér að styðja Framsóknarflokkinn. Hvort það er vegna stefnunnar í Evrópumálunum veit ég ekki, enda er kannski ekki svo mikið mark takandi á skoðanakönnunum en þetta var þó engu að síður nefnt, frú forseti.