132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög gott að forusta Framsóknarflokksins er farin að tala skýrar um væntingar sínar um aðild að Evrópusambandinu. Þá vita hugsanlegir kjósendur og hugsanlegir fyrrverandi kjósendur þeirra hvað á borðum er.

Ég er reyndar algjörlega andvígur því að menn velti fyrir sér aðild að Evrópusambandinu, það er mín skoðun og míns flokks. En forusta Framsóknarflokksins telur að það eigi að fara út í þann dans. Samningsmarkmið verða ekki skilgreind á annan hátt en þann að sótt verði um aðild og séð hvað gerist. Það tekur enginn upp viðræður við annan aðila undir öðrum formerkjum og það hafa fulltrúar Evrópusambandsins sagt. Það að Félag ungra framsóknarmanna skuli álykta á þennan veg dregur skýrar fram áhuga flokksins á að ganga í Evrópusambandið. Það tel ég nauðsynlegt. Þá vita væntanlegir kjósendur og fyrrverandi kjósendur Framsóknarflokksins hvert stefna flokksins er að þróast, eins og hv. þingmaður hefur lýst hér, og gera það þá upp við sig í kosningum hvort þeir styðja þá stefnu flokksins að vinna að aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kemur aftur í ræðustól, frú forseti, væri líka fróðlegt að vita hvort Félag ungra framsóknarmanna hefur hvatt formann Framsóknarflokksins til þess að biðjast afsökunar á Íraksstríðinu.