132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þó að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé nú sennilega talinn vera í Framsóknarflokknum eru áhöld bæði af flokksins hálfu og annarra hvort hann sé alltaf að tala í nafni flokksins. Mér finnst hann ekki vera að tala í nafni hans nú, ekki þegar við berum saman við ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, ritara Framsóknarflokksins sem hefur verið talsmaður hans í þessari umræðu, sem hefur sagt alveg skýrt að flokkurinn sé að hneigjast til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og bent á að menn sætu uppi með einhverja gamlingja sem væru enn þá þeirrar skoðunar að ekki ætti að gera það en unga fólkið sem væri að taka við væri þeirrar skoðunar að það ætti að ganga lengra í aðildarumsókn. Ég veit ekki hvort hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flokkast þá í þann hóp sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um að þyrfti að bíða eftir að færi, ef ég nota mín orð fyrir hennar.

Ég velti fyrir mér, frú forseti, hvort hinn almenni framsóknarmaður verði nokkuð spurður. Ákvarðanir innan Framsóknarflokksins í meiri háttar málum hafa yfirleitt verið teknar af tiltölulega fámennum hópi. Var hinn almenni framsóknarmaður spurður þegar innrásin í Írak var studd? Var þingflokkurinn nokkuð spurður um það hvort styðja ætti innrásina í Írak? Var einhver lýðræðisleg ákvörðun tekin í svoleiðis stórpólitísku máli? Mig minnir að þvert á móti hafi einmitt verið sagt að þetta hafi verið einhliða ákvörðun örfárra manna og að þingflokkurinn og aðrir aðilar innan Framsóknarflokksins hafi ekkert komið þar að. Verður ekki sami háttur hafður á varðandi hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, frú forseti?