132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að meðganga það að ég er svolítið ruglaður í stefnu Framsóknarflokksins í þessu máli, þ.e. hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Það er vegna þess að á síðasta kjörtímabili, því sem var á undan því sem nú er að líða, og reyndar eftir það líka, tók formaður Framsóknarflokksins margoft upp umræðu um Evrópumál, stóð reyndar fyrir þeirri umræðu hvað eftir annað. Ég held að öll þjóðin hafi skilið það á þann veg að hann teldi fulla ástæðu til þess að velta þessum málum mjög alvarlega fyrir sér.

Annað á ég erfitt með að skilja. Hv. þingmaður hélt því fram að stefna Framsóknarflokksins væri skýr, það á ekki að huga í alvöru að Evrópusambandsaðild. En hvers vegna í ósköpunum ákveður slíkur flokkur þá að fara út í það að undirbúa samningsmarkmið? Það finnst mér ekki eðlileg niðurstaða ef menn líta ekki þannig á að reynt geti á það að nýta sér þau markmið í samningaviðræðum um aðild. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég er eiginlega fjær því að skilja almennilega stöðu Framsóknarflokksins í þessum málum eftir ræðu hv. þingmanns.