132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ákaflega skynsamlegt að menn reyni að gera sér grein fyrir því á hverjum tíma hvaða kostir eru í stöðunni og á hvern hátt staðan gæti breyst. Framtíðin er nú einu sinni óráðin, menn vita ekki hvort aðstæður breytast og menn fari að meta mál á annan hátt en nú er. Það er því eðlilegt að menn meti hugsanleg samningsmarkmið í samskiptum sínum við önnur ríki, í þessu tilviki við Evrópusambandið. Það er til að fá upplýsingar um þá kosti sem eru í boði og bera þá saman við það sem er. Í því felst ekki að menn vilji breyta því sem er, það er önnur ákvörðun.

Ég held því að hlutirnir séu ákaflega skýrir, virðulegi forseti. Hins vegar finnst mér að hv. þingmaður megi gjarnan útskýra fyrir okkur hvers vegna flokkur hans vill ganga í Evrópusambandið. Mér finnst að hann eigi að reyna að segja okkur það í örfáum orðum hver ávinningur Íslendinga að slíkri aðild á að vera. Mér finnst það miklu meira mál sem þarf útskýringar við. Ef menn ætla að breyta því sem er þurfa menn að hafa rök fyrir því. Þeir þurfa að geta dregið þau rök fram og sýnt fólki fram á að í breytingunni felist einhver ávinningur. Það finnst mér algerlega hafa vantað í málflutning flokks hv. þingmanns í þessum efnum. Þeir eiga heilmikið verk óunnið í því að leggja á borðið röksemdir fyrir þeirri stefnu sem þeir aðhyllast í þessu máli.