132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur fyrir ýmissa hluta sakir verið athyglisverð, hún hefur þróast út í almenn skoðanaskipti og ekki síst samanburð á stefnu flokka í hinum ýmsu málum. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hafa sérstaklega verið að mæla sig hér saman, a.m.k. í tveimur viðamiklum málum, annars vegar hvað varðar viðhorf til veru Bandaríkjahers hér í landinu og hins vegar hvað varðar Evrópumál.

Um þessa Evrópuumræðu ætla ég svo sem ekki að fjölyrða. Ég hef satt best að segja ekki tilfinningu fyrir því að þau mál eigi eftir að verða mjög ofarlega á baugi í þjóðmálaumræðunni á Íslandi allra næstu missiri. Í Noregi ríkir kyrrstaða í þessum málum eða öllu heldur stöðugt ástand, ný ríkisstjórn er tekin við völdum og hefur það ekki á stefnuskrá sinni að hreyfa við Evrópusambandsmálinu eða aðildarmálinu og skoðanakannanir sýna vaxandi andstöðu Norðmanna við aðild að Evrópusambandinu ef eitthvað er.

Í Bretlandi er búið að fresta öllum hugmyndum um að kjósa um evruna og skoðanakannanir sýna sterkan meiri hluta fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu, sem er ákaflega athyglisvert satt best að segja. Í Svíþjóð og Danmörku eru kosningar eða hugmyndir um endurtekningu á kosningum um aðild að evrunni ekki á dagskrá og ekki ljóst hvaða stefnu þessi mál taka í Danmörku í ljósi þess að fyrirhugaðar kosningar um stjórnarskrá Evrópusambandsins eru úti af borðinu eftir að Frakkar og Hollendingar kolfelldu stjórnarskrárdrögin.

Það er því fátt sem bendir til þess, og ekki síður ef hugað er að stöðu Íslands, að þessi mál muni brenna mjög á mönnum hér á næstu missirum. Það er að vísu þannig að það gætir ákveðinnar þráhyggju eða nauðhyggju hjá vissum stjórnmálaöflum að reyna að nudda áfram með þetta mál en á afar óljósum forsendum þó. Ég verð að segja eins og er að ég hef engan botn fengið í þetta tal um að skilgreina samningsmarkmið, að það sé eitthvað rosalega brýnt og mikið og stórt verkefni áður en menn taka ákvörðun um það hvort þeir ætla að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Bíddu, er það svona rosalega flókið og mikið? Er þetta nú ekki hálfvandræðalegt?

Auðvitað snýst þetta ósköp einfaldlega um það hvort pólitískur áhugi er á því og vilji til þess að ganga í Evrópusambandið eins og það er eða ekki. Evrópusambandið er eins og það er. Halda menn að það verði endurskipulagt ofan í grunninn, ofan í kjölinn til þess eins að passa fyrir Ísland? Nei.

Það liggur nú fyrir að ný aðildarríki eiga ekki kost á neinum varanlegum undanþágum frá reglum Rómarsáttmálans og regluverki Evrópusambandsins, því að ef það er eitthvað sem kontóristarnir í Brussel hata þá eru það undanþágur. Enda er ekki hægt að stjórna sambandi ríkja, 25 stykkjum, ef hvert og eitt hefur alls konar klæðskerasaumaðar undanþágur, það gefur augaleið.

Þess vegna hatast Evrópusambandið við þær undanþágur sem hafa af sögulegum ástæðum dagað þar uppi, sérstaklega hjá Dönum. Það þarf enginn að hafa af því neinar minnstu áhyggjur eða gera sér neinar minnstu vonir um það að Ísland hrófli nokkuð við þessu regluverki og fái einhverjar varanlegar undanþágur.

Menn tala hér um hina frægu Berlínarræðu Halldórs Ásgrímssonar. Hvað stendur nú eftir af þeim vangaveltum, m.a. eftir heimsókn yfirmanns sjávarútvegsmála Evrópusambandsins til Íslands á dögunum? Hvað stendur eftir af hugmyndum um það að hægt sé að smeygja sér einhvern veginn framhjá sameiginlegu fiskveiðistefnunni með einhverri sértækri framkvæmd hennar í vestanverðu Atlantshafinu? Ég hef satt best að segja ekki fengið neinn botn í það heldur. Engum hefur tekist að færa nein rök fyrir því að slíkt yrði mögulegt þannig að ekki er mikið eftir í því.

Staðan er sú að þau ríki Evrópu sem eru utan Evrópusambandsins, þau þrjú stóru í Vestur- eða Mið-Evrópu sem það gildir um auk þá Liechtenstein, þ.e. Noregur, Ísland og Sviss, eru þrjú af fjórum best stæðu Evrópuríkjunum. Það er aðeins Lúxemborg innan Evrópusambandsins sem getur státað af sambærilegum tölum hvað varðar verðmætasköpun o.s.frv. Það bendir ekki til þess að það sé alveg að drepa menn að vera ekki í Evrópusambandinu, er það? Nei, mér sýnist það ekki. Ég veit bara ekki annað en menn uni ágætlega sínum hag í Noregi, á Íslandi og í Sviss almennt og gangi þokkalega. Ég sé því ekki alveg rökin fyrir þessu.

Hefur eitthvað breyst sem varðar hagsmuni Íslands? Er Evrópusambandið að einhverju leyti að breytast í þá átt að fýsilegra sé að ganga í það? Einhverjir sem eru á móti samrunaþróuninni og sambandsríkismynduninni mundu kannski segja að það hafi þá verið jákvætt í sjálfu sér að stjórnarskráin var felld og er komin út af borðinu. En þeir ætla ekkert að taka mikið mark á því af því að nú eru þeir að leita leiða til að láta í framkvæmdinni eins og stjórnarskráin hefði verið samþykkt því það er ekki venjan í Evrópusambandinu að taka mikið mark á almenningi ef hann kemst að vitlausri niðurstöðu í kosningu. Írar fengu að læra það. Og nú er verið að hamast við að reyna að koma fótum undir Javier Solana t.d. Af hverju? Af því að búið er að gera hann að sérstökum eiginlega utanríkisráðherra Evrópusambandsins þó það vanti að vísu lagastoðina, þ.e. stjórnarskrána. En það á ekki að segja honum upp, nei, nei, þó að stjórnarskráin sé út af borðinu. Það er bara fundin svona einhver ný leið til að smeygja honum fram hjá og hafa hann í hlutverki. Ég sé ekki að það sé neitt að breytast sem varðar hagsmuni og stöðu Íslands sem gefi tilefni til að skoða það að við sækjum þarna um aðild.

Upp hefur komið sú kostulega umræða að það gæti verið sniðugt að taka upp evru vegna vandans í hagstjórn á Íslandi í augnablikinu. Það er ein allra kostulegasta umræða sem ég hef lengi heyrt því að forsenda þess að taka upp evruna er að ganga í Evrópusambandið. Dettur einhverjum manni í hug að það verði gert bara einn, tveir, þrír, að hægt verði að kippa efnahagsvandanum eða óstjórninni í lag með því að vera kominn inn í Evrópusambandið og kominn með evru í apríl eða helst bara núna fyrir áramótin? Nei, ætli það tæki ekki nokkur ár. Það þarf að skilgreina samningsmarkmiðin. Það er alveg rosaleg vinna. Við höfum heyrt um það. Síðan þarf fara í viðræðurnar og landa þeim. Síðan er fullgildingarferlið á Íslandi og í öllu Evrópusambandinu sem tæki nú einhver missiri. Svo kemur aðlögunartímabil. Í kjölfar þess að Ísland væri komið inn í Evrópusambandið þarf að máta krónuna við skilyrðin fyrir upptöku evrunnar. Það er talið að það taki a.m.k. tvö ár í viðbót eftir allt samningsferlið, allan fullgildingarprósessinn sem tekur einhver ár. Því er tómt mál að tala um upptöku evru á Íslandi sem lögeyris fyrr en eftir fimm til sjö ár og allt yrði sett á fulla ferð í dag. Það bara blasir við. Ég hef orðað það þannig að það að ætla að lagfæra óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, sem auðvitað er mikið vandamál — ég geri ekki lítið úr því — með því að taka upp evru er svona svipað eins og að ætla að gera við þakleka, ef þakið hjá manni lekur, með því að trúa á að það hætti að rigna eftir fimm til sjö ár. Þetta er svona svipuð hugmynd vegna þess að það er líka alveg furðuleg hugsun að það væri jákvætt fyrir okkur að taka upp evru við þessar aðstæður. Nóg um það.

Vegna þess sem ákveðnir ræðumenn hafa nefnt um vestnorrænt og norrænt samstarf vil ég taka undir þau orð. En af því að það er sérstakur dagskrárliður á þinginu síðar í vetur að ræða sérstaklega um það samstarf og skýrslur um það þá geymi ég mér að fjalla um það frekar tímans vegna.

Ég ætla aðeins að víkja betur að, og nánar en ég gat í mínu máli, í fyrsta lagi málefnum íslensku friðargæslunnar sem svo er kölluð í Afganistan og í raun endurtaka að ég fagna því að það á að draga heim eða hætta þátttöku á þeim svæðum í Afganistan sem órólegust eru núna. Ástandið í Afganistan er satt best að segja skelfilegt. Þar eru fá svæði þar sem menn geta verið nokkurn veginn óhultir nema þá helst höfuðborgin Kabúl og varla þó eins og Íslendingar þekkja af eigin raun. Norðmenn hafa ákveðið að draga hermenn sína heim frá Afganistan. Nýja norska ríkisstjórnin er með það á stefnuskrá sinni þannig að ekki verða Íslendingar lengi í sveitum Norðmanna á þessu svæði. Þau tíðindi eru líka að gerast að Bandaríkjamenn eru að gefast upp í Afganistan. Eins og stundum áður ætla þeir öðrum að taka til eftir sig þegar þeir eru búnir að fara um í sínum styrjöldum og kveikja elda. Ástandið í Afganistan er hroðalegt. Þar vaða stríðsherrar og héraðshöfðingjar uppi og ráða lögum og lofum á ákveðnum svæðum. Algert stjórnleysi ríkir á mörgum svæðum í norðanverðu landinu sérstaklega og reyndar sunnanverðu líka. Því er vandséð að íslenskir borgarar þvældir inn í hernaðarleg verkefni vopnaðir og með hernaðartitla eigi mikið erindi á þessum svæðum. Slíkir menn eru verr settir en hvort sem heldur er hermenn sem hafa stöðu sem slíkir eða starfsmenn hjálparsamtaka sem ganga fram undir merkjum Rauða krossins, kirkjusamtaka eða annarra slíkra aðila. Þessi samblöndun er mjög varhugaverð og setur þessa menn í ákaflega vonda stöðu og þarna hafa menn lent inn í mikla ófærð.

Ég vil endurtaka það og koma aðeins inn á það sem hér hefur líka verið rætt í dag um ólöglegt fangaflug. Ég hef lagt fram eða endurnýjað fyrirspurn með beiðni um skriflegt svar sem hæstv. utanríkisráðherra svarar vonandi innan tíðar um leið og hann hefur fengið til þess frekari gögn frá Bandaríkjunum. En ég vil reyndar skjóta því að hæstv. utanríkisráðherra að mér finnst ekki frambærilegt að hengja allt sitt traust á að Bandaríkjamenn, sökudólgurinn sjálfur, skaffi upplýsingar um sjálfan sig. Af hverju leggjast ekki íslensk stjórnvöld í sjálfstæða rannsókn á þessu máli? Það er mikið af gögnum að fá, í fyrsta lagi auðvitað frá íslenskum flugmálayfirvöldum. Í öðru lagi liggja fyrir áreiðanleg gögn úr umfjöllun annarra þjóðþinga og í umfjöllun virtra fjölmiðla sem íslensk stjórnvöld geta að sjálfsögðu skoðað og þurfa ekki hjálp Bandaríkjamanna til. Við erum alveg læs, getum farið yfir þessi gögn sjálf á eigin forsendum. Ég tel að í þessu máli eigi íslensk stjórnvöld að sinna rannsóknarskyldu sinni og ég tel að íslensk lögregluyfirvöld geti ekki látið svona rökstuddar grunsemdir um lögbrot, mannréttindabrot og brot á alþjóðlegum samningum eins og vind um eyru þjóta. Hefur lögreglan ekki þá skyldu að fara ofan í saumana á málum ef rökstuddur grunur leikur á lögbrotum? Þó ekkert væri annað en það að rökstuddur grunur sé um að flugvélar hafi komið hér undir fölsku flaggi, burt séð frá farminum, ef í reynd opinbert flug stjórnvalda er dulbúið og fær ranglega heimildir til yfirflugs sem borgaralegt flug þá er það brot og það á að rannsaka. Ég vona að lögreglustjórinn í Reykjavík eða sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli og þeir herrar allir og ríkislögreglustjórinn séu að hlusta. Ég skora á þá að svara fyrir um það með hvaða rökum þeir aðhafast ekki í málinu.

Síðan finnst mér lágmark að í kjölfar þessarar annars vegar rannsóknar og úttektar stjórnvalda á málinu og síðan þess að lögregluyfirvöld fari yfir málið verði send formleg opinber orðsending til bandarískra stjórnvalda bara þannig að það sé hafið yfir vafa og liggi fyrir — í því felst engin fyrir fram ásökun eða sakfelling — að það sé bara algerlega skýrt að svona lagað vilja Íslendingar ekki hafa, með svipuðum hætti og danskir ráðamenn sáu ástæðu til að gera. Ég var að fara yfir það aftur í pappírum frá danska þinginu og umræðunum á danska þinginu. Þar kemur alveg skýrt í svari ráðherrans við fyrirspurn Franks Aaens að um formlega orðsendingu danskra stjórnvalda til bandarískra var að ræða.

Að síðustu væri fróðlegt að hafa tíma til að ræða þau öryggismál sem talsvert hefur borið á góma undir ýmsum formerkjum. En til þess er takmarkaður tími. Ég vil þó segja að fróðlegt væri að velta því fyrir sér og ræða það, ef hægt væri að fá um það málefnalega umræðu: Hvort halda menn að Íslendingar og Ísland hefði verið öruggara núna í dag eða síðastliðin þrjú ár með eða án bandarísks hers í landinu og með eða án stuðnings við Íraksstríðið?. Er nokkur hérna sem vill koma í þennan ræðustól og færa rök sem halda vatni fyrir því að öryggi Íslands og íslenskra borgara hafi verið meira í heiminum eins og hann er nú um stundir vegna þess að við höfðum í landinu bandarískan her og vegna þess að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson misnotuðu nafn landsins og lögðu það við ólögmæta innrás í Írak? Nei, ég alveg fullyrði að Álandseyjar eru öruggari með sína griðasamninga við nágrannaþjóðir sínar um að þeir séu vopnlaust svæði, að þeir ógni engum og enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að þeir réðust á nokkurn mann og minni hætta er á því t.d. að þeir verði fórnarlamb hryðjuverka eða sviptinga í alþjóðastjórnmálum vegna stöðu sinnar. Það er dapurlegt að ekki skuli vera hægt að fá stundum málefnalegar umræður um það á breiðum grundvelli hvaða mismunandi leiðir séu færar til að reyna að þróa öryggis- og friðargæslukerfi í heiminum og í einstökum ríkjum eins og Íslandi á einhvern annan hátt með hinum gömlu aðferðum vígbúnaðarins og hervæðingarinnar. Hefur það gefist mjög vel? Er ekki reynslan sú að hafa vopn hafa tilhneigingu til að vera notuð og það væri betra að þau væru alls ekki til? Það er miklu hættuminna að menn leysi úr deilumálum og almennt umgangist hver annan með öðrum aðferðum en þeim að brúka vopn.