132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:12]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er oftast gaman að sitja úti í sal og hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon tala af innlifun og sannfæringu fyrir skoðun sinni. Hér kom hv. þingmaður og gerði mikið grín að okkur sem viljum skilgreina samningsmarkmið í þeim tilgangi að fara í viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild Íslands að því góða sambandi. Helst skildi ég það á hv. þingmanni að það væri hlægilegt að vilja vita hvert maður ætlar að fara áður en maður leggur af stað. En ég hélt að það væri einmitt hygginna manna siður að vilja vita hvert maður ætlar áður en maður leggur af stað í ferðalag.

Ég var ekki á þingi þegar umræðan stóð sem hæst um EES-samninginn og hvernig sá samningur liti út fyrir okkur Íslendinga. Ég man þó til þess, verandi bara tittur úti í bæ, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði ákaflega hart á móti þeim samningi og fann honum allt til foráttu með svipuðum rökum og mér finnst hann vera að gera núna varðandi Evrópusambandið. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann álíti enn þá að sú skoðun sem hann var á á þeim tíma varðandi EES-samninginn hafi verið rétt, hvort hann telji enn þá að EES-samningurinn sé okkur til bölvunar og vandræða eða hvort hv. þingmaður er kominn á sömu skoðun og ég held flestallir landsmenn að það hafi verið gæfuspor að ganga þá leið að verða aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og það hafi verið mikil sprauta inn í íslenskt efnahagslíf að gera svo. Kannski getur hv. þingmaður lýst fyrir okkur hvernig hann héldi að ástandið væri hér ef samþykkt hefði verið að gera hlutina eins og hann vildi á þeim tíma.