132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:57]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Samkvæmt hegningarlagabreytingu frá árinu 1996 er ólöglegt að flytja fanga um Ísland til landa þar sem beitt er aðferðum sem brjóta í bága við þrjá alþjóðlega sáttmála sem Íslendingar eru aðilar að um bann við pyndingum. En ég ætla ekkert að deila frekar um það við hæstv. ráðherra í dag og ekki heldur um túlkanir hans á orðum mínum um þetta.

Ég gat ekki alveg skilið hvað hæstv. ráðherra var að segja. Er sú yfirlýsing sem Davíð Oddsson gaf fallin úr gildi? Má líta svo á að þegar þeir aðilar sem stóðu að innrásinni í Írak lýstu því yfir að henni væri formlega lokið hafi sú yfirlýsing fallið úr gildi? Í því sambandi, frú forseti, vil ég rifja það upp að hæstv. forsætisráðherra hefur lýst skoðun sinni á því máli.