132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Að mínu mati fá börn of stutta samveru með foreldrum sínum fyrstu mánuði eftir fæðingu eða sex til níu mánuði eftir samsetningu fjölskyldna þeirra. Börnin fá að mínu mati of lítinn tíma með foreldrum sínum áður en foreldrarnir þurfa að fara aftur út að vinna, flestir fullan vinnudag og gott betur til að ná endum fjölskyldunnar saman. Á þessum tíma taka börnin gríðarlegt þroskastökk. Þau byrja að sitja, borða venjulegan mat, standa upp, skríða og sum jafnvel að taka fyrstu skrefin. Það er rétt hægt að ímynda sér þann andlega þroska sem á sér stað á þessum tíma samhliða öllum þessum líkamlegu afrekum. Þarna myndast grunntengsl barna við foreldra sína og á þeirri reynslu byggja börnin tengsl sín til framtíðar og alla tengslamyndun. Það er því mín einlæga skoðun að lengja beri fæðingarorlofið í skrefum þar til það hefur náð allt að 18 mánaða samveru foreldra og barns.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á er fæðingarorlof hér sex til níu mánuðir eftir því hvernig samsetning fjölskyldna er. Í samanburðarlöndum, eða á hinum Norðurlöndunum, er fæðingarorlofið yfirleitt lengra eða sem nemur allt að 68 vikum í Svíþjóð. Í Danmörku er það 52 vikur, í Finnlandi getur það orðið allt að 44 vikur og í Noregi 52 vikur og hér á landi 39 vikur. Við erum því þarna töluvert á eftir. Við þekkjum það að hér er töluvert bil og getur liðið töluverður tími þangað til fæðingarorlofi lýkur og þangað til vist á leikskóla hefst. Þarna tel ég að það liggi ákveðin hætta hvað varðar markmið laganna um jafnrétti þar sem hætt er við því að þetta tímabil vinni gegn markmiðum laganna hvað jafnréttisþáttinn varðar vegna þess að ef ekki fæst inni — og það hefur verið töluvert erfitt nú orðið að fá inni hjá dagmæðrum og fá dagvistunarúrræði fyrir börn á þessum aldri upp að leikskólaaldri, frá lokum fæðingarorlofs og upp að leikskólaaldri — því er hætt við, miðað við hvernig samfélag okkar er upp byggt, að það verði konurnar sem brúi þetta bil þangað til leikskólinn hefst. Það er því mín skoðun að við verðum að skoða þetta vel. Því hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra:

1. Telur ráðherra að til greina komi að lengja fæðingarorlof enn frekar, t.d. í 12 mánuði þar sem móðir fengi fimm mánuði, faðir fimm mánuði og sameiginlega fengju foreldrar tvo mánuði?

2. Hver yrði útgjaldaauki Fæðingarorlofssjóðs við slíka framkvæmd?

3. Hver er núverandi kostnaður ríkis og sveitarfélaga vegna dagvistunarúrræða fyrir börn að 12 mánaða aldri?