132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:13]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta merka mál, fæðingarorlof. Það er alveg ljóst og hefur komið fram í umræðunum að þetta er sérstaklega núna vandi foreldra og barna þeirra þegar fæðingarorlofinu lýkur og áður en börnin komast á leikskóla. Þennan vanda verður með einhverjum hætti að leysa. Á þessu hefur verið vakin athygli núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Ég á von á því að núna þegar sveitarstjórnarmenn hefja kosningabaráttu sína þá íhugi þeir mjög verulega hvaða úrræði þeir ætla að bjóða upp á í sínum sveitarfélögum. Það kom sérstaklega fram í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna að boðið var upp á margar lausnir í málflutningi þeirra sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Ég trúi því að Sjálfstæðisflokkurinn muni koma með góðar lausnir á vanda þessara barna.