132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:17]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þessa góðu umræðu. Það er auðvitað ánægjulegt að hv. þingmenn skuli deila ánægju ríkisstjórnarinnar með þau góðu lög sem voru að hennar frumkvæði samþykkt í þinginu á sínum tíma um fæðingarorlof sem á sennilega ekki sinn líka í heiminum.

Að mínu frumkvæði fer nú fram norræn samanburðarrannsókn á mismunandi fæðingarorlofskerfum Norðurlandanna og ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenska kerfið er í fremstu röð, ekki bara á Norðurlöndunum heldur í heiminum öllum. Það finn ég á viðbrögðum allra þeirra sem fá kynningu á kerfinu hvar sem maður kemur.

Ég vil sömuleiðis, hæstv. forseti, geta þess að málefni yngstu barnanna eru til sérstakrar skoðunar í fjölskyldunefnd forsætisráðherra. Verið er að skoða hvaða úrræði skuli standa til boða börnum sem eru á þeim aldri að fæðingarorlofs nýtur ekki lengur við og ekki er komið að því að þau fái inni á leikskólunum eins og rætt hefur verið hér.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson minntist á nauðsyn þess að foreldrar hefðu tíma með börnum sínum, ekki bara meðan þau væru hvítvoðungar heldur líka á seinni skeiðum æskunnar og bernskunnar. Lögin um foreldraorlof kveða á um rétt foreldra til þess að taka orlof með börnum sínum til 8 ára aldurs en ég geri ráð fyrir því að í frumvarpi sem ég mun leggja fyrir þingið, um rétt langveikra barna og breytingar á lögunum um foreldraorlof, verði einmitt gerð tillaga um það að foreldraorlof gildi ekki einungis gagnvart börnum til 8 ára aldurs heldur til 18 ára aldurs. Þar erum við að stíga enn eitt skrefið í framfaraátt, þessi góða ríkisstjórn, hæstv. forseti.