132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:30]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Svör hæstv. félagsmálaráðherra beina sjónum okkar að því hversu lítið fjármagn fer til að hrinda framkvæmdaáætlun um jafnrétti í framkvæmd. Ég var að reyna að telja þetta saman og eftir hröðum upplestri, fljótt á litið, sýndist mér þetta vera í mesta lagi 30–40 millj. kr. Svipaðar upphæðir hafa landbúnaðarráðuneytið, og reyndar önnur ráðuneyti, verið að leggja til embættis sem kallað hefur verið umboðsmaður hestsins á undanförnum árum. Þegar hann fékk mest, sá maður, held ég að það hafi verið 50 millj. kr. á íslenskum fjárlögum. Er það þá svo, frú forseti, að hesturinn sé mikilvægari en jafnréttismálin öll til samans í íslensku samfélagi? Hér þarf að forgangsraða upp á nýtt, það er augljóst, og það þarf ekki aðeins að forgangsraða fjármununum, ég er fullviss um það að þarf að færa allan málaflokkinn undir forsætisráðuneytið svo honum sé sinnt almennilega og það sé boðvald yfir öðrum ráðherrum.