132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi vekja athygli á því að á eftir munum við, að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ræða sérstaklega um launamuninn þannig að við höfum tækifæri til þess í framhaldinu.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr hvort það sé vegna vanmáttar þess er hér stendur að ég hef viðrað þá skoðun mína og lagt á það áherslu að ég tel að málaflokkurinn jafnréttismál eigi að færast undan félagsmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis. Ég get svarað hv. þingmanni alveg skýrt í þeim efnum. Nei, það er ekki vegna vanmáttar. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég tel að jafnréttismálin séu málaflokkur sem er í grundvelli sínum mannréttindamál sem okkur hefur kannski ekki tekist að þoka til þess vegar sem við flest óskuðum og ég tel að með því að vista þann málaflokk í forsætisráðuneytinu þá fái hann þann sess sem honum ber og þá vigt sem honum ber. Það kann vel að vera að það verði tímabundin ráðstöfun. En ég tel engu að síður að það sé nauðsynlegt að gera þær breytingar á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu.

Það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að ýmist hælist Samfylkingin úr þessum ræðustóli yfir hugmyndaauðgi sinni að hafa að hennar sögn fyrstur flokka lagt þetta til (Gripið fram í.) eða gerir við það alvarlegar athugasemdir að sá sem hér stendur núna leggi það til, þannig að það er í þessu máli eins og í mörgum öðrum að það er ekki alltaf gott að átta sig á því hvort sá ágæti flokkur er að koma úr austri eða vestri.

Það er talað um hver kostnaðurinn við þetta allt saman sé og ég tók það fram í upphafi máls míns, hæstv. forseti, að það væri ekki auðvelt að gera grein fyrir því á þeim stutta tíma sem okkur er markaður hér. Mér telst til hann sé nálægt 100 millj. Það má auðvitað lengi halda því fram að það sé of lítið og er sjálfsagt allt of lítið ef við ætlum okkur að ná árangri í þessum efnum. Ég tel hins vegar að við þokumst í rétta átt og það er það sem er mest um vert, hæstv. forseti.