132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

255. mál
[11:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr hvað líði undirbúningi framkvæmdaáætlunar um launajafnrétti kynjanna. Ber þá fyrst að nefna að gerð þessarar áætlunar er einn af 16 liðum í gildandi framkvæmdaáætlun um jafnréttismál sem félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á eða er samstarfsaðili um. Þar fyrir utan ber félagsmálaráðuneytinu að sjálfsögðu að vinna að þeim tólf verkefnum öðrum sem skilgreind eru á ábyrgðarsviði ríkisstjórnarinnar og allra ráðuneyta.

Ég hef beitt mér fyrir mörgum verkefnum sem sérstaklega tengjast launajafnrétti kynjanna. Ég hef ritað öllum fyrirtækjum og stofnunum hér á landi sem hafa fleiri en 25 starfsmenn erindi þar sem ég hvet til þess að atvinnurekendur komi í veg fyrir kynbundinn launamun og nú hef ég sett saman hóp sem ætlað er að vinna að sérstakri gæðavottun jafnra launa fyrirtækja. Þá hef ég farið yfir þessi mál í ráðuneytinu hjá mér, eins og kom fram fyrr í dag, og ýtt úr vör jafnlaunaskoðunum í öllum stofnunum félagsmálaráðuneytisins. Vinnumálastofnun mun hefja það verkefni fyrir okkar hönd.

Ég ritaði jafnframt þann 24. október síðastliðinn ráðherrum ríkisstjórnarinnar bréf þar sem ég hvatti til þess að þeir gerðu slíkt hið sama og hafa ráðuneytin þegar leitað til félagsmálaráðuneytis varðandi þá vinnu.

Þá hafði ég frumkvæði að því, hæstv. forseti, að hrint var af stað norræna verkefninu um mælistikur á launajafnrétti þar sem markmiðið er að gera norrænar tölfræðiupplýsingar skýrari svo þær gefi gleggri mynd af orsökum kynbundins launamunar og verði samanburðarhæfar milli landa. Lok þess verkefnis eru áætluð árið 2006.

Ég hef jafnframt ýtt úr vör vandaðri og góðri könnun um launamyndun og kynbundinn launamun sem er endurtekning á viðurkenndri könnun sem Félagsvísindastofnun vann árið 1995 og var einmitt eitt þeirra 16 verkefna sem getið er um í framkvæmdaáætluninni. Það er mikilvægt að endurtaka þá ítarlegu könnun þannig að við höfum vandaðan grunn til að vinna á og ég vænti þess að niðurstöður hennar liggi fyrir á næsta ári eins og í norræna verkefninu.

Jafnframt vil ég nefna hér að í gildandi kjarasamningum við opinbera starfsmenn voru gerðar breytingar sem ætlað var að jafna launamun kynjanna. Fyrir liggur að nýtt launakerfi sem byggir á nýjum stofnanasamningum mun taka gildi 1. maí 2006 og verður að fullu komið til framkvæmda 1. maí 2007. Nú í nóvembermánuði er að hefjast vinna við útfærslu hins nýja launakerfis.

Hæstv. forseti. Ég hef ákveðið með vísan til þeirrar vinnu sem nú er að hefjast við gerð útfærslu launakerfis hjá hinu opinbera og hinnar viðamiklu jafnlaunakönnunar sem tekur bæði til opinbers og almenns vinnumarkaðar að byggja gerð framkvæmdaáætlunar um launajafnrétti kynjanna á þeim niðurstöðum sem þar fást. Ég hef ítrekað sagt að mér finnst skorta á rannsóknir sem grundvöll opinberrar stefnumótunar í jafnréttismálum og þau vinnubrögð sem ég hyggst nú byggja á eru í fullu samræmi við þá skoðun.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort unnið sé í samræmi við 14. og 22. gr. jafnréttislaga. Ég get fullvissað hv. þingmann um að svo er þegar verið er að skoða launamuninn. Það eru heildarlaunin sem skipta máli, það sem fólk fær raunverulega í hendur. Á því leikur enginn vafi. Hvað varðar beitingu 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun þá má segja að í nýgerðum kjarasamningum, fyrrtilvitnuðum á opinberum markaði, hafi henni verið beitt við ná fram leiðréttingum. Það er von mín og trú að þegar vörpun yfir í nýjan kjarasamning verði lokið muni þær konur sem teljast með lægri laun en karlar í sambærilegum störfum hafa fengið leiðréttingu launa sinna og þar af leiðandi meira úr þeim potti sem aðildarfélögin hafa úr að spila. Það er t.d. svo með Starfsmannafélag ríkisstofnana, SFR, að þar er tiltekið hlutfall merkt sérstaklega leiðréttingum og kynbundnum launamun. Það er ekki einungis jákvætt, hæstv. forseti. Það er sjálfsagt mál.

Hvað varðar opinbera vinnumarkaðinn þá hefur verið fjallað um launamun kynjanna meðal ráðherra, ráðuneyta og stofnana í gildandi kjarasamningum eins og ég sagði hér fyrr. Heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga koma að sjálfsögðu að þeim og munu einnig koma að útfærslu kjarasamninga og stofnanasamninga sem m.a. miða að því að útrýma kynbundnum launamun. Öll sú vinna mun vonandi skila okkur árangri og að sjálfsögðu verða veganesti við smíð framkvæmdaáætlunar sem ef vel gengur getur hafist af fullum krafti á næsta ári.

Eins og áður hefur komið fram hefur ekki verið hafin formleg vinna að því en fyrirtæki og stofnanir hafa verið hvött til að setja sér jafnréttisáætlanir sem lúta að þeirra eigin fyrirtækjum, þ.e. þeirra sem hafa fleiri en 25 starfsmenn. Var það gert með sérstöku átaki á síðastliðnu ári þegar send voru út tæplega þúsund bréf til allra fyrirtækja og stofnana sem féllu undir þessa skilgreiningu eins og áður sagði.

Jafnframt var á þessu ári sent annað bréf til sömu aðila og hvatt sérstaklega til aðgerða til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Þá er sérstök gæðavottun launa nú í undirbúningi eins og áður sagði.

Hv. þingmaður spyr hvenær stefnt sé að því að áætlunin verði að fullu komin til framkvæmda. Það er stefnt að því að framkvæmdaáætlunin komi til fullra framkvæmda á gildistíma framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem tekur til fjögurra ára og mun það skýrast á næsta ári hvernig hún verður útfærð eins og ég hef rakið í máli mínu, hæstv. forseti.

Það liggur fyrir að framkvæmdaáætlunin er í fullu gildi og mun svo verða fram í maí 2008. Félagsmálaráðuneytið er að sinna þeim verkefnum sem því var falið í áætluninni enda þótt ógerningur sé að vinna að þeim öllum í einu eins og ég veit að hv. þingmenn skilja. Það var mitt mat, hæstv. forseti, að rétt væri að framkvæma verkefnin í réttri röð svo unnt væri að byggja þau hvert á öðru. Eins og fram kom í máli mínu hér að framan hef ég ákveðið að byggja gerð framkvæmdaáætlunarinnar um launajafnrétti á þeim niðurstöðum sem fást við útfærslu launakerfis hjá hinu opinbera og á viðamikilli launakönnun sem ég gerði grein fyrir í máli mínu.