132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[11:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt það mikilvægasta til að ná fram jafnrétti kynjanna er að stjórnarherrarnir séu vakandi í því máli og fylgi því vel eftir að lögum sem fjalla um jafnréttismál, jafnréttislögunum, sé fylgt eftir.

Ég hef lagt fram fyrirspurn til ráðherra um jafnréttisfræðslu fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana og spyr:

Hvað hefur ráðherra gert til að hrinda í framkvæmd fræðslu um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta og að koma á jafnréttisfræðslu fyrir pólitískt kjörna fulltrúa hjá framkvæmdarvaldinu?

Þetta var einn liður í þeirri ágætu tillögu sem við höfum verið að fara í gegnum. Þar var tekið mjög ákveðið á fræðslu um jafnréttismál og að fræðsla jafnréttisáætlunar ætti að ná til allra stjórnenda í stjórnsýslunni og þá var sérstaklega tekið fram að jafnréttisfræðsla ætti að ná til allra ráðherra. Ég hef þess vegna hug á að heyra hvað hefur verið gert í því máli. Þessi leið var farin t.d. í Svíþjóð með góðum árangri, þar var skipulega tekið á jafnréttisfræðslu til allra, bæði stjórnenda og ráðherra og það skilaði alveg ágætisárangri. En það hefur auðvitað sýnt sig, þó ég ætli ekki að tiltaka neitt sérstakt dæmi um það þó ég geti það, að ekki veitir af hjá mörgum hæstv. ráðherrum að fá fræðslu í jafnréttismálum. Þess vegna er mikilvægt að heyra hér og nú hvað hæstv. ráðherra hafi gert í því máli, hvort það hafi verið rætt í ríkisstjórn og hvort það hafi ekki fengið góðar undirtektir að stjórnendur og pólitískt kjörnir fulltrúar hjá framkvæmdarvaldinu, þar með taldir ráðherrar, fái slíka jafnréttisfræðslu.

Ég vil taka fram að í álitinu var líka rætt um að alþingismenn og stjórnendur þingsins ættu að fá slíka jafnréttisfræðslu og ég hef hreyft því máli í forsætisnefnd að hún taki það upp þannig að hægt sé að undirbúa hér líka slíka jafnréttisfræðslu. Þetta er auðvitað einn liðurinn af mörgum, að jafnréttisfræðsla nái upp allan stigann til stjórnenda og æðstu pólitísku fulltrúa til að við náum árangri í þessu efni. Þess vegna er fyrirspurnin lögð fram, virðulegi forseti.