132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[12:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin og það yfirlit sem hann gaf yfir þau verk sem hann vinnur að varðandi fræðsluþáttinn í jafnréttismálunum. Ég gat ekki annað heyrt á hæstv. ráðherra en hann hefði fullan hug á að koma kollegum sínum í ríkisstjórninni á jafnréttisnámskeið og hefði hugleitt hvernig hann ætti að fara að því. Ég býst við að það verði þrautin þyngri hjá hæstv. ráðherra að draga ráðherrana í jafnréttisfræðslu, jafnnauðsynlegt og það er.

Hæstv. ráðherra vitnaði með réttu til Svíþjóðar þar sem allir ráðherrar fóru á jafnréttisnámskeið sem vakti athygli víða um heim. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að drífa í því. Að vísu áttaði maður sig ekki alveg á hvert ráðherrann var að fara. Ég skil ekki af hverju einhver leynd þarf að hvíla yfir þeim leiðum sem hann ætlar að fara í þessu efni. Hæstv. ráðherra sagði að hann hefði áhugaverðar hugmyndir á sínu borði, ef ég skildi hann rétt, um hvernig hann ætti að draga ráðherrana í jafnréttisfræðslu en það væri ekki tímabært að greina frá því. Það getur varla hvílt svo mikil leynd yfir því að hæstv. ráðherra geti ekki deilt því með okkur, þeim fáu sem hér sitjum, hvaða leiðir hann ætlar að fara í því efni.

Það væri áhugavert ef ráðherrann upplýsti um hvort hann er búinn að boða ráðherrana, senda þeim sérstakt boðskort eða boða þá sérstaklega á karlaráðstefnuna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hve margir ráðherrar mæta þar en þetta er mjög brýnt mál að taka á. Ég heyri að ráðherrann hefur fullan hug á þessu og veltir því fyrir sér kvölds og morgna hvernig hann geti dregið ráðherrana í jafnréttisfræðslu. En ég bið ráðherrann lengstra orða að gefa okkur frekari upplýsingar um hvaða leynivopn hann er með í sínum fórum til að koma ráðherrunum á jafnréttisnámskeið. Og ég skal verða fyrst til að óska hæstv. ráðherra til hamingju þegar honum tekst það.