132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hátækniiðnaður.

[15:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra varðandi hátækniiðnaðinn á Íslandi en það hafa borist fréttir af því að ríkisstjórnin ætli að skipa nefnd til að fara yfir stöðu alþjóðlegrar fjármálastarfsemi á Íslandi og er það vel. En ég hefði talið að það hefði verið rétt að fá einnig fulltrúa úr stjórnarandstöðunni til þess að þetta verk farist vel úr hendi.

Ég tel það mjög jákvætt í sjálfu sér að ríkisstjórnin skipi þann hóp því þá kemst hún út úr því álversfari sem hún hefur verið í en álversuppbygging virðist vera eina leiðin sem hugað hefur verið að í atvinnusköpun. Sú uppbygging hefur haft ýmsar aukaverkanir en ekki síður hinar miklu breytingar á lánakjörum almennings sem hafa hækkað og aukið þensluna. Það væri fróðlegt að fá viðbrögð iðnaðarráðuneytisins við þeirri skýrslu sem gefin var út af ráðuneytinu um vaxtarbrodd íslensks atvinnulífs og þá er ég að tala um hátækniiðnaðinn. Í skýrslunni kemur fram að hann glímir við talsverða erfiðleika. Þessi atvinnugrein skiptir verulega miklu máli þar sem yfir 60% af vinnuaflinu er menntað fólk sem er á háum tekjum í þessum fyrirtækjum. En það kreppir mjög að þessum iðnaði og það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að grípa til einhverra aðgerða í kjölfarið.

Það er nú svo að þessi iðnaður selur vörur sínar á erlendum markaði og fær því æ færri íslenskar krónur fyrir framleiðsluna en kostnaðurinn er mikill innan lands m.a. hár launakostnaður, þess vegna þrengir verulega að iðnaðinum. Þess ber að geta að sjö af hverjum tíu krónum sem stóriðjan fær í tekjur renna strax til útlanda. Þessi iðnaður skiptir verulega miklu máli vegna þess að hér er vaxtarbroddur og það verður mjög mikið af virðisaukanum eftir í landinu.