132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hátækniiðnaður.

[15:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það kom nú ekkert fram hjá hæstv. ráðherra hvernig hún hygðist bregðast við en það kom fram hjá henni að við værum ósammála hvað varðar forsendur gengishækkunarinnar. En látum það vera, hæstv. ráðherra. Hvernig ætlum við að leysa þau vandamál sem blasa við? Það er verkefni dagsins en ekki endilega að greina hver orsökin er. Ég held að allir viti að það eru álversframkvæmdirnar og síðan er það þenslan. En þótt við séum ósammála um það þá blasir við að við megum ekki kæfa þá vaxtarbrodda sem eru í íslensku atvinnulífi. Ég tel að það sé verkefni dagsins sem framsóknarmenn ættu að horfa til, ekki að vera að horfa á þrjú ný álver á sama deginum eins og kom hér fram í umræðunni, heldur að líta á þær atvinnugreinar sem eru framtíðin og vera ekki að kæfa þær, og þegar erfiðleikar blasa við að horfast í augu við þá og grípa til aðgerða.