132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hátækniiðnaður.

[15:30]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held því fram í sambandi við atvinnumál að fjölbreytileikinn skipti mestu máli og þess vegna á ekki að útiloka neitt fyrir fram, hvort sem það er álver, hátækniiðnaður eða eitthvað annað. Það er algjör misskilningur ef hv. þingmaður heldur að ríkisstjórnin leggi sig fram um að kæfa þessa vaxtarbrodda eins og hann talaði um. Við viljum að sjálfsögðu hlúa að þeim eins og við mögulega getum en neitum því ekki að staða íslensku krónunnar veldur þessari iðngrein erfiðleikum eins og fleirum.

Reyndar er nefnd að störfum innan ráðuneytisins sem fjallar um þetta og eins og ég sagði áðan munum við funda með Samtökum iðnaðarins um málið á næstu dögum. En ég vona svo sannarlega að úr rætist úr því að þessi störf eru mikilvæg, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, mjög mikilvæg fyrir okkar unga fólk sem er hámenntað, sækir sér jafnvel nám erlendis og kemur heim og þarf (Forseti hringir.) að fá störf, góð störf á Íslandi.