132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Svör ráðherra við fyrirspurn um Byggðastofnun.

[15:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem í ræðustólinn til að ræða um þann hátt sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafði hér á áðan þegar hún svaraði eða svaraði ekki fyrirspurn frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Hv. þingmaður spurði um ákveðna skýrslu og ráðherrann útskýrði fyrir sína parta að það hefðu verið mistök að skýrslan hefði ekki borist þingmanninum en hún hefði verið send í morgun. Hún hefur sennilega verið send með skipapósti því að hún hefur ekki borist enn þá, við vorum að tékka á því.

En það er ekki tilefni þess að ég kem hingað. Það er þannig, frú forseti, að við þingmenn höfum samkvæmt þingskapalögum heimild til að spyrja hæstv. ráðherra óundirbúinna fyrirspurna með ákveðnu millibili. Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar þinglegar skyldur til að svara þeim eftir bestu getu. Hv. þingmaður varpaði fram spurningu til hæstv. ráðherra um Byggðastofnun og starfsemi hennar áðan. Hún spurði m.a. hvort hæstv. ráðherra hygðist tryggja starfsemi stofnunarinnar með því að beita sér fyrir fjárveitingum á fjárlögum til þess að tryggja næsta ár eða aukafjárveitingum til þess að tryggja út þetta ár.

Nú er auðvitað ekki hægt að gera þá kröfu til ráðherra að þeir svari einhverju sem þeir vita ekki og við vitum það að ansi oft er það svo með núverandi hæstv. ríkisstjórn að hún veit ekki hvað hún vill og vill stundum það sem hún ekki gerir. Í öllu falli var það a.m.k. sjálfsögð kurteisi af hæstv. ráðherra að koma og svara þessu en hún gerði það ekki. Mér finnst það sjálfum ekki vera í takt við þingskapalög. Mér finnst það líka vera dónaskapur af hæstv. ráðherra að sitja og þruma í sæti sínu þegar hún fær slíka málefnalega spurningu og svara henni ekki. Því finnst mér, frú forseti, algjörlega nauðsynlegt að taka þetta aftur upp hér við fyrsta tækifæri þegar þingsköp leyfa, sem er á morgun. Jafnframt spyr ég hæstv. forseta hvort ekki sé réttur skilningur hjá mér að þegar þingmaður ber fram málefnalega spurningu við þessi tækifæri þá beri hæstv. ráðherra skylda til að svara. Er ekki svo, frú forseti?