132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:41]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994.

Með frumvarpinu er lagt til að bann verði lagt við prófun snyrtivara á lifandi dýrum.

Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 2003/15/EB um breytingu á tilskipun 76/768/ EBE, um samræmingu ákvæða í lögum aðildarríkja varðandi snyrtivörur, skulu aðildarríkin banna markaðssetningu á fullunnum snyrtivörum þar sem tilraunir á dýrum hafa verið hluti þróunarferilsins. Heimilt er þó í ákveðinn tíma að prófa einstök innihaldsefni og blöndur af innihaldsefnum. Við prófun á snyrtivörum er hins vegar unnt að nota aðrar aðferðir en prófun á dýrum en svo háttar oft ekki til með prófun á öðrum efnum og lyfjum. Auk þess á að vera unnt að tryggja öryggi snyrtivara á grundvelli upplýsinga um öryggi innihaldsefna þeirra. Er því lagt til að bann verði lagt við prófun snyrtivara á lifandi dýrum.

Frumvarpið hefur verið til skoðunar hjá tilraunadýranefnd sem fagnar fyrirhugaðri breytingu. Jafnframt hefur verið haft samráð við dýraverndarráð við undirbúning frumvarpsins sem gerir ekki athugasemd við það.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.