132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hið merkasta og ágætasta mál sem menn hljóta að styðja heils hugar, að lagt verði bann við því að nota lifandi dýr til að prófa áhrif af snyrtivörum.

Í því ljósi vildi ég beina þeim spurningum til hæstv. umhverfisráðherra hvort henni væri kunnugt um umfang slíkra prófana hérlendis. Er mikið um að verið sé að nota lifandi dýr til að prófa áhrif af snyrtivörum og hve mikil verða áhrif laganna út frá því á þennan iðnað og hvað kemur þá í staðinn? Hér segir, með leyfi forseta:

„Auk þess á að vera unnt að tryggja öryggi snyrtivara á grundvelli upplýsinga um öryggi innihaldsefna þeirra. Er því lagt til að bann verði lagt við prófun snyrtivara á lifandi dýrum.“

Ég held að flestir hljóti að taka undir að það á að vera bannað að nota lifandi dýr til að prófa áhrifa snyrtivara. Það er grimm og býsna viðurstyggileg aðferð gagnvart lifandi skepnum. Hvað kemur í staðinn og hvernig tryggjum við öryggi snyrtivara eftir að slíkt bann, sem er sjálfsagt, gengur í gildi? Er eitthvert millistig sem tryggir öryggi varanna áður en þær fara á markað og verður mannskepnan þá í rauninni fyrsta lifandi tilraunadýrið sem áhrif snyrtivörunnar verða prófuð á þar sem bannað er að prófa þær á lifandi dýrum? Hvernig er það tryggt og hvað kemur í staðinn?