132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:59]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel fulla þörf á því að fara yfir dýraverndarmálin. Ég flutti lítið frumvarp á síðasta þingi um að skýra þyrfti þessi lög. Ég tel að þau mál sem hafa komið upp á undanförnum árum þar sem embætti hafa verið að takast á um verksvið sýni að full þörf er á að fara yfir þennan málaflokk.

Í Morgunblaðinu í gær var fjallað um dýraverndarmál í Vatnsdalnum þar sem lýst var yfir að nauðsynlegt væri að færa þetta á einn stað, þetta væri ekki tvískipt. Annars vegar að landbúnaðarráðuneytið sæi um framleiðslu á lögbýlum en Umhverfisstofnun sæi hins vegar um hvað annað sem undir dýraverndarmálaflokk fellur. Og það væri fróðlegt ef við fengjum í lokin hjá hæstv. umhverfisráðherra stutta tölu um stöðu á þessu máli, hvort samvinna væri í gangi og þá hvort verið væri að skýra og fara yfir þessi mál því ég tel að þeir úrskurðir sem hafa fallið m.a. í umhverfisráðuneytinu feli það í sér að fara þurfi rækilega í gegnum þessi mál.

Einnig má nefna í þessu sambandi, af því að við erum farin að ræða um landbúnaðarmálin, að verið er að fækka sláturhúsum m.a. með opinberu fé, ríkishagræðing sem margir efast um, þar á meðal ég. Það felur í sér að menn hafa lokað sláturhúsum í heilu landshlutunum þannig að flytja verður fé langar leiðir. Aðbúnaður er misjafn í þeim bílum sem standa að flutningunum þó svo ég telji að aðbúnaður hafi almennt farið batnandi með sláturfé. Þetta hlýtur að hafa verið í umræðunni milli ráðuneyta, þ.e. annars vegar sá kafli sem heyrir undir landbúnaðarráðuneytið og hins vegar sá sem heyrir undir umhverfisráðuneytið því þessi mál skarast.