132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[16:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég hef ekki almennilega þekkingu á dýraverndarlögum en ég hef hins vegar grun um að lagasetning af þessu tagi geti orðið til þess að menn líti þannig á, af því að hér er verið að tala um afmarkaðan vöruflokk, að þar með séu fyrir hendi leyfi til þess að nota dýr í tilraunum af öðru tagi, t.d. vegna einhvers konar neysluvara eða einhverra annarra vara sem ekki yrðu þá taldar upp.

Það er svolítið varasamt að telja upp hvað ekki má vegna þess að það getur orðið til þess að þá sé eitthvað talið leyfilegt sem ekki er talið upp. Hér ættu að sjálfsögðu að vera lög um tilraunir á dýrum sem væru þá almenns eðlis og þannig að hægt væri að meta hvort tilraunir á dýrum væru ásættanlegar. Auðvitað eru til reglur sem farið er eftir hvað varðar eitthvað af þessum flokkum, ég veit alla vega að til er nefnd sem fjallar um þá hluti, en ég spyr og ég bið nefndarmenn að skoða það í nefndarstarfinu hvort það að setja inn einn sérstakan flokk geti valdið því að það verði þá löglegt að nota dýr í tilraunir hvað varðar aðra flokka.